Skólasýningar

Skólasýningar á Alþjóðlegri Barnakvikmyndahátíð í Reykjavík 2022

Kennslustundir í kvikmyndalæsi fyrir börn og unglinga hafa notið mikilla vinsælda í Bíó Paradís síðustu ár undir leiðsögn Oddnýjar Sen. Markmiðið með kennslunni er að veita börnum og unglingum möguleika á að kynnast kvikmyndum sem eru ýmist klassískar perlur eða hafa skapað sér ákveðinn sess innan kvikmyndasögunnar.

Á Alþjóðlegri barnakvikmyndahátíð verður boðið upp á skólasýningar fyrir börn og ungmenni á höfuðborgarsvæðinu. Skólahópum gefst kostur á að panta sæti fyrir sinn bekk á skólasýningar þeim að endurgjaldslausu. Skráning fer fram í gegnum tölvupóst á netfangið lisa@bioparadis.is Vinsamlega gefið upp nafn og símanúmer kennara, auk fjölda og aldurs barnanna.

Kynnið ykkur myndirnar og dagskrána hér að neðan en sýningarnar fara fram 1. – 4. nóvember 2022.

LEIKSKÓLAR

ANDRI OG EDDA BÚA TIL LEIKHÚS | 3+ (2017 / 81 mín / Noregur / Talsett á íslensku)

Andri og Edda fara í leikhús með leikskólanum sínum … en þá langar þau að búa til sína eigin leiksýningu! Sem þau og gera! Dásamleg barnakvikmynd og sjálfstætt framhald af Andri og Edda verða bestu vinir sem sýnd var á fyrstu Alþjóðlegu Barnakvikmyndahátíðinni í Reykjavík!

Sýningar: 1. nóvember kl 11:30,  2. nóvember kl 9:30,  3. nóvember kl 11:30 og  4. nóvember kl 9:30.

1.-4. BEKKUR

JÓN ODDUR OG JÓN BJARNI | 6+ (1981 / 96 mín / Ísland / Íslenskt tal)

Tvíburarnir Jón Oddur og Jón Bjarni eru ósköp venjulegir frískir strákhnokkar. Stundum eiga þeir til að vera ansi uppátektarsamir – og jafnvel óþekkir – en með barnslegu sakleysi sínu bræða þeir auðveldlega hvers manns hjarta. Ógleymanleg kvikmynd sem lætur engan ósnortinn! Byggð á bók að sama nafni eftir Guðrúnu Helgadóttur. Sýnd í samstarfi við Kvikmyndasafn Íslands.

Sýningar: 1. nóvember kl 9:30, 2. nóvember kl 11:30,  3. nóvember kl 9:30 og 4. nóvember kl 11:30.

E.T. | 6 + (1982 / 115 mín / Bandaríkin / Sýnd með íslenskum texta)

Kvikmyndin E.T. fagnar 40 ára afmæli í ár! Hún fjallar um geimveruna E.T. sem verður viðskila við félaga sína og ílengist á jörðinni. Ungur drengur, Elliot, finnur hana og platar hana heim til sín þar sem systkini Elliots kynnast geimverunni. E.T. langar þó mest að komast til síns heima og reynir Elliot sitt besta til að hjálpa henni.

Sýningar: 2. nóvember kl 9:30,  3. nóvember kl 9:30 og 4. nóvember kl 11:30.

LOS BANDO | 6+ (2018 / 94 mín / Noregur, Svíþjóð / Sýnd með íslenskum texta)

Það er töff að vera í hljómsveit, og þessir krakkar ætla að taka þátt í Alþjóðlegu keppninni í rokki! En til þess þurfa þau að ferðast yfir landið endilangt í kapphlaupi við tímann, lögregluna og foreldra sína! Myndin var tilnefnd til Young Audience Award árið 2019.

Sýningar: 1. nóvember kl 9:30,  3. nóvember kl 11:30 og 4. nóvember kl 9:30.

5.-7. BEKKUR

HVAR ER ANNE FRANK | 9+ (2021 / 99 man / Belgía / Sýnd með íslenskum texta)

Byggð á dagbók Anne Frank teflir Ari Folman hér fram kvikmynd byggða á sögu hennar þar sem sögufrásögnin hefur hlotið gríðarlega athygli, en leikstjórinn er þekktastur fyrir kvikmynd sína Waltz with Bashir sem hann hlaut Óskarsverðlaunin fyrir sem bestu erlendu myndina. Í myndinni lifnar Kittý við, ímyndaða stúlkan sem Anne skrifaði til í dagbókum sínum.

Sýningar: 1. nóvember kl 11:30.

8.-10. BEKKUR

GIRL | 12 + (2018 / 109 mín / Belgía, Holland / Sýnd með íslenskum texta)

Hin 15 ára Lara hefur einsett sér að verða atvinnu ballerína og ákveður hún að elta þann draum í nýjum skóla. En gremja og óþolinmæði unglingsáranna magnast upp þegar hún gerir sér grein fyrir því að líkami hennar beygist ekki eins auðveldlega eftir ströngum reglum ballettsins, en ástæður þess má aðallega rekja til þess að henni var úthlutað vitlausu kyni við fæðingu.

Sýningar: 2. nóvember kl 11:30.