Fréttir

Aðsóknarmet slegið og gríðarlega metnaðarfullt ár að baki

08/04/2016

Bíó Paradís fagnar sjötta starfsári sínu í ár og heldur áfram að vera eina menningarhús sinnar tegundar á Íslandi. Bíó Paradís er sjálfseignastofnun sem er stofnað með það að markmiði að efla og styðja kvikmyndamenningu og kvikmyndafræðslu á Íslandi.

Síðan Bíó Paradís tók til starfa haustið 2010 hafa yfir 1400 kvikmyndir frá 60 löndum verið sýndar í húsinu, yfir 270 íslenskar stutt- og heimildamyndir verið sýndar, tekið hefur verið á móti 33.000 börnum í kvikmyndafræðslu, og hefur Bíó Paradís staðið að ótalmörgum hátíðum og kvikmyndatengdum viðburðum.

Ætla má að yfir 400.000 gestir hafi notið kvikmynda og annarra viðburða í húsinu og fjöldi þeirra mynda sem gefnar hafa verið út á Íslandi, sem eru frá öðrum svæðum en Hollywood, hefur meira en þrefaldast á tímabilinu. Árangur Bíó Paradísar í að fylgja eftir markmiðum sínum um kvikmyndamenningu og fræðslu er því ótvíræður.

Aðsóknarmet og aukning í kvikmyndafræðslu

Aðsóknarmesta ár Bíó Paradís frá upphafi var árið 2015, en um rúma 48% aukningu gesta er að ræða á milli áranna 2014 og 2015.

Gríðarleg fjölgun varð í grunnskólasýningum í kvikmyndafræðslu, eða um 12,5%, þar sem 7122 börn sóttu þær á árinu 2014 og 8017 á árinu 2015. Einnig var aukning í framhaldsskólasýningum kvikmyndafræðslu á árinu 2015.

Kvikmyndalæsi – ört vaxandi þáttur í læsiskilningi nýrrar kynslóðar

Bíó Paradís hefur á árunum 2011 – 2015 boðið upp á kennslu í kvikmyndalæsi fyrir grunnskólanema, nemendum að kostnaðarlausu.  Árið 2013 bættist svo við samskonar kennsla á framhaldsskólastigi.  Í árslok 2015 er Bíó Paradís í samstarfi við 9 framhaldsskóla á höfuðborgarsvæðinu og tekur á móti 9.536 nemendum árlega í kennslu í kvikmyndalæsi.

Kvikmyndalæsi er sífellt að verða mikilvægara á tímum þar sem sjónrænir miðlar ráða ríkjum, og er stór þáttur í því að skilja til dæmis fjölmiðla, staðalímyndir og áróður. Bíó Paradís er eini staðurinn á landinu þar sem kennsla í kvikmyndalæsi fer fram, en auk kennslunnar sér Oddnýjar Sen, kvikmyndafræðingur, um að útbúa kennslugögn og námsskrá grunn- og framhaldsskóla í kvikmyndafræðslu

Alþjóðlegt samstarf

Bíó Paradís er eini meðlimur Europa Cinemas á Íslandi, og CICAE, alþjóðasamtökum listrænna kvikmyndahúsa, og í þessum mánuði varð Bíó Paradís fyrsti íslenski meðlimur samtakanna Europa Distribution, en það eru samtök dreifingaraðila sem sérhæfa sig í evrópskum kvikmyndum.

Það sem hæst bar á árinu 2015

RachidBoushared_VigdisFinnbogad BrendaBlethyn

Stockfish- Kvikmyndahátíð í Reykjavík var haldin í fyrsta sinn undir nýju nafni, en hátíðin var áður nefnd Kvikmyndahátíð í Reykjavík. 

Á sjöunda þúsund manns sóttu Stockfish hátíðina sem haldin var haldin 19. febrúar – 1. mars 2015. Fjöldi erlendra gesta sóttu hátíðina heim, bæði úr alþjóðlegu kvikmyndaumhverfi og blaðamenn. Á meðal þeirra voru hinn íslenski Sverrir Guðnason, leikari og Jens Östberg leikstjóri Flugnagarðsins / Blow Fly Park, Óskarsleikstjórinn Rachid Bouchareb og leikkonan, Brenda Blethyn. Einnig komu til landsins norsku leikstjórarnir Unni Straume, Bent Hamer og Eskil Vogt auk Pavel Jech skólameistara hins þekkta FAMU skóla í Tékklandi og Christine Vachon, framleiðanda.

Sigurður Sverrir Pálsson, kvikmyndatökumaður var sérstaklega heiðraður á hátíðinni en hann er hefur tekið alls tólf íslenskar bíómyndir auk fjölda heimildamynda. Auk þeirra voru fjöldamargir fleiri gestir bæði viðstaddir viðburði og sýningar hátíðarinnar.

Sprettfiskurinn 2015, stuttmyndaverðlaun hátíðarinnar fóru til Foxes sem framleidd er af Evu Sigurðardóttur og Askja Films en leikstýrt af Mikel Gurrea. Stuttmyndin fjallar um ungan fasteignarsala sem á rigningarsömu kvöldi í London þarf að sjá um tíu ára son á meðan hann er að reyna að ljúka stórri sölu. Feðgarnir Malcolm og Aron eiga í erfiðum samskiptum en á meðan á þessu gengur eltir dularfullur refur þá um. Í umsögn dómnefndar segir að Foxes sé heilsteypt og einlægt verk sem á erindi við nútímann. „Næmni höfundar fyrir persónusköpun er áþreifanleg, um leið og leikstjórn er sannfærandi og örugg. Í einfaldri sögu er dregin upp mynd af raunveruleika sem ófáir munu kannast við“.

Sex fagfélög í kvikmyndagerð standa að Stockfish – evrópskri kvikmyndahátíð í Reykjavík. Þau eru: SÍK- Samband Íslenskra kvikmyndaframleiðenda, SKL – Samtök kvikmyndaleikstjóra, FK – Félag kvikmyndagerðarmanna, FÍL – Félag Íslenskra leikara, WIFT – Konur í kvikmyndum og sjónvarpi og FLH – Félag leikskálda og handritshöfunda og skipa fulltrúar þessara félaga stjórn hátíðarinnar. Meðal samstarfsaðila eru Reykjavíkurborg og Evrópustofa.

csm.imagen- Barnakvikmyndahátíð 2015-_DSC9294 csm.imagen- Barnakvikmyndahátíð 2015-_DSC9215

Alþjóðleg Barnakvikmyndahátíð í Reykjavík 20. – 30. mars 2015 

Þetta er í þriðja skiptið sem hátíðin var haldin. Sýndar voru verðlaunamyndir víðs vegar að úr heiminum sem og klassískar íslenskar barnamyndir. Næsta kynslóð kvikmyndagerðarmanna og kvikmyndaunnenda fengu tækifæri á að kynnast hvernig kvikmyndir og teiknimyndir verða til, upplifa leiklist fyrir kvikmyndir ásamt því að njóta fjölbreyttra alþjóðlegra barnakvikmynda. Þema hátíðarinnar var að þessu sinni er tileinkað friði og endurspegluðu myndirnar á hátíðinni mikilvæg málefni sem tengjast því efni. Þá fengu gestir að kynnast hugmyndafræði eins og fjölmenningu, kynvitund, líkamsvirðingu, skapandi og gagnrýnni hugsun.

Í fyrsta sinn var gestum boðið á hátíðina, leikstjórum, framleiðendum og fagfólki í kvikmyndagerð, sem héldu fjölbreytt námskeið og fyrirlestra fyrir börn og unglinga.

Leiklist fyrir kvikmyndir 

Hvernig verða tölvuleikir til?

Litla systir mín- Spurt og Svarað

Órói – Spurt og Svarað

Songs for Alexis – umræður 

Reykjavík Shorts & Docs 

Hátíðin var haldin 9. – 12 apríl 2015 í tólfta sinn. Hápunktur hátíðarinnar var Íslandsfrumsýning heimildamyndarinnar Citizen Four um Edward Snowden sem hlaut Óskarinn fyrr á árinu. Laura Poitras, stjórnandi myndarinnar, sat fyrir svörum á hátíðinni.

Þýskir kvikmyndadagar voru haldnir í fimmta sinn 12. -22. mars 2015 í samvinnu við Goethe Institut Danmörku og Þýska sendiráðið á Íslandi. Sýndar voru sex nýjar og spennandi myndir, þverskurður af því besta frá Þýskalandi.

Pólskir kvikmyndadagar voru haldnir í samstarfi við Pólska Sendiráðið á Íslandi 25. – 26. apríl þar sem þrjár pólskar gæðakvikmyndir voru sýndar. Frítt var inn og allir velkomnir.

Evrópsk kvikmyndahátíð – Allan hringinn

11053319_899016866802283_4148764448840778581_n

Evrópustofa og Bíó Paradís efndu á ný til Evrópskrar kvikmyndahátíðar í samstarfi við Films on the Fringe og buðu brot af því besta í evrópskri kvikmyndagerð allan hringinn dagana 15. maí – 26. maí. Í annað sinn fór hátíðin allan hringinn, en farið var á sex staði víðsvegar um land. Boðið var upp á kvikmyndafræðslu fyrir börn, undir styrkri leiðsögn Oddnýjar Sen, kvikmyndafræðings en verkefninu er ætlað að breiða út kvikmyndafræðslu sem fer fram allt árið um kring í Bíó Paradís. Á þeim stöðum þar sem ekki var kvikmyndahús voru myndirnar sýndar með fullkomnum stafrænum sýningarbúnaði, í bestu mögulegu hljóð- og myndgæðum.

Japanskir kvikmyndadagarBíó Paradís og sendiráð Japans á Íslandi kynntu, Japanska kvikmyndadaga 3. – 6. september 2015. Heillandi heimur japanskra kvikmynda, japönsk töfrahelgi fyrir börn og ungmenni, úrval teiknimynda fyrir börn á öllum aldri og japanskir leikir og spil í boði Nexus. Frítt var inn á alla dagskrá, myndirnar voru sýndar á Japönsku með enskum texta.

Rússneskir kvikmyndadagar Dagana 10. – 13. september voru Rússneskir kvikmyndadagar haldnir í Bíó Paradís í samstarfi við Sendiráð rússneska sambandsríkisins á Íslandi, Menningarmálaráðuneyti Rússlands og fleiri. Það besta úr rússneskri kvikmyndagerð, fjölbreyttar verðlaunamyndir voru á dagskrá en þær voru sýndar á rússnesku með enskum texta.

Aðgengi 2015 Á árinu 2015 tókst bíóinu að safna fyrir aðgengi fyrir hjólastóla á hópfjárölfunarsíðunni Karolina Fund en á áætlun er að opna aðgengið formlega á árinu þar sem nú í apríl 2016 er verið að fullgera stæði inn í sal 1. Starfsfólk og stjórn Bíó Paradísar voru djúpt snortin yfir þeim ótrúlegu viðbrögðum sem íslenskt samfélag sýndi í söfnun sem fór fram á Karolina Fund. Markmið söfnunarinnar náðust og rúmlega það. Yfir 50% fjárloforða söfnuðust á síðasta sólarhringnum, og þar með var met slegið í hópfjáröflun á síðunni Karolina Fund.

 

Skoða fleiri fréttir