Svartir sunnudagar hafa ákveðið að tileinka þremur sunnudögum þessari helgu bók og hefja leikinn næsta sunnudag, 9. apríl kl 20:00, með kvikmyndinni Spider Baby, or The Maddest Story Ever Told eftir Jack Hill og er hún frá árinu 1967. Þessari mynd er gerð skil í bókinni góðu, þar sem henni er þannig lýst að ef Luis Bunuel hefði einhverntíman gert gamanþætti í sjónvarpi þá yrði það eitthvað í líkingu við Spider Baby. Jack Hill átti síðar eftir að gera garðinn frægan með “Blaxpoitation” myndum eins og Foxy Brown, Coffie og Switchblade Sisters.
Annan í páskum, 17. apríl, munu Sunnudagarnir svörtu svo sýna eina frægustu cult mynd allra tíma, Faster Pussycat, Kill Kill! eftir furðufuglinn Russ Meyer. Þessi mynd hefur verið í uppáhaldi manna eins og John Waters alveg frá því hún var frumsýnd árið 1965 og er hún enn sýnd í cult myndabíóum víða um heim. Myndin fjallar um þrjú lævís glæpakvendi sem vefja feðgum nokkrum um fingur sér í eftirsókn eftir skjótfengnum auði. Dauðasyndirnar sjö koma þarna allar uppá yfirborðið. Það er því vel við hæfi að þetta sé páskamynd Svartra sunnudaga í ár.
23. apríl verður svo sýnd myndin The Mask eftir Julian Hoffman frá 1961. Myndin fjallar um fornleifafræðing sem fær endurteknar martraðir tengdar grímu sem finnst í uppgreftri. Áður en hann fremur sjálfsmorð sendir hann grímuna til sálfræðingsins síns sem verður fljótlega dreginn inní martraðarheim grímunnar. Samnefnd gamanmynd með Jim Carrey er lauslega byggð á þessari mjög sérkennilegu hrollvekju.