Aðgengi í Paradís

Bíó Paradís hefur stórbætt aðgengi síðastliðið ár þar sem búið að setja upp ramp inn í sal 1, lyftu inn í sal 2 og 3. Hjólastólastæði eru í öllum sölum og salerni fyrir hreyfihamlaða er komið í notkun. Fólk í hjólastólum fær frítt í bíó. Allir aðstoðarmenn og liðveisla fá frítt í bíó með sínum skjólstæðingum.

Bíó Paradís býður upp á tónmöskva í sal 1 og er á áætlun að koma upp búnaði í sal 2 og 3 á árinu 2024. Einnig er boðið reglulega upp á sjónlýsingar, skynvænar sýningar og sýningar fyrir ólíkar þarfir fólks og fjölbreytta hópa. Bíó Paradís eru þess utan Heilavinir í samstarfi við Alzheimersamtökin. Nánar um Heilavini hér:

Páskasýning Heilavina á Hárinu – Frítt inn sjá nánar hér:

Skynvæn páskasýning á Vélmennadraumum – Frítt inn sjá nánar hér:

Bíó Paradís býður nú uppá bíó í björtu á öllum miðvikudögum kl 14 fyrir alla sem vilja komast í bíó að degi til. Tilvalið fyrir eldra fólk, fólk sem vinnur á kvöldin og alla þá sem vilja auka félagslega virkni í öruggu og skemmtilegu umhverfi.

Bíó Paradís býður 25% afslátt fyrir nema, öryrkja og eldri borgara. Afslátturinn fæst í miðasölu á staðnum en ekki á vefnum. Hverskyns hópar og félagsstarf sérstaklega velkomnir. Miðvikudagsbíó er í samstarfi við Laugarásinn geðmeðferðardeild, Hlutverkasetrið og teymi fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd.

Nánar um Miðvikudagsbíó hér:

Ljósmynd: Ruth Ásgeirsdóttir

Bíó Paradís hlaut hvatningarverðlaun ÖBÍ 2023.  Bíó Paradís hlýtur verðlaunin fyrir frumkvæði að því að efla aðgengi fyrir alla með sérstöku tilliti til ólíkra hópa.

„Eins og við vitum skiptir menning, þátttaka og samvera miklu máli fyrir samfélagið. Það er bensínið okkar og gerir okkur að þeim sem við erum. Þess vegna hefur það verið okkur svo mikið kappsmál að fá alla fjölbreytta hópa samfélagsins inn. En ávinningurinn er allur okkar megin því menningarlega auðmagnið sem við fáum inn frá því að geta boðið alla velkomna er okkar megin,“ sagði Hrönn Sveinsdóttir, framkvæmdastjóri Bíó Paradís þegar hún veitti verðlaununum móttöku.

Bíó Paradís hlaut aðgengisviðurkenningu Reykjavíkurborgar 2024 en viðurkenningin var kunngjörð á opnum fundi aðgengis- og samráðsnefndar í málefnum fatlaðs fólks sem fram fór á Sjóminjasafninu í mars 2024.Viðurkenningin er veitt þeim einstaklingum, hópum, félagasamtökum, fyrirtækjum eða stofnunum sem á eftirtektarverðan hátt hafa staðið vörð um gott aðgengi með fjölbreyttum hætti.

Viðurkenninguna hlýtur Bíó Paradís fyrir að hafa stórbætt aðgengi fatlaðs fólks með fjölbreyttar aðgengisþarfir að kvikmyndahúsinu. Húsnæði Bíó Paradís við Hverfisgötu var gert aðgengilegt og haldnar hafa verið sýningar sem henta sérstaklega einhverfu, heyrnarskertu og sjónskertu fólki. Í kvikmyndahúsinu eru einnig haldin Miðvikudagsbíó í samstarfi við Laugarás meðferðargeðdeild, Teymi Reykjavíkurborgar um alþjóðlega vernd og neyðarskýlin. Bíó Paradís fór af stað með þessar breytingar á bættu aðgengi að sýningum og húsnæðinu að eigin frumkvæði og eru til fyrirmyndar þegar kemur að inngildingu þjónustu.

Bíó Paradís hlýtur aðgengisviðurkenningu Reykjavíkurborgar. F.v. Elísabet Guðrúnar og Jónsdóttir formaður, Hrönn Sveinsdóttir, framkvæmdastjóri Bíó Paradís og Ása Baldursdóttir dagskrárstjóri Bíó Paradís.