Bíó Paradís, í samvinnu við Nordisk Film og TV Fond, sýnir allar myndirnar sem tilnefndar eru til Kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs dagana 18. – 21. október nk. Myndirnar verða allar sýndar með enskum texta, og miðverði verður stillt í hóf og kostar aðeins 800 kr inn á hverja mynd.
Sérstakur heiðursgestur Bíó Paradísar er finnski leikstjórinn Teemu Nikki, en mynd hans Euthanizer er opnunarmynd dagskránnar.
Veijo Haukka er fimmtugur vélvirki sem lógar einnig veikum dýrum. Minni dýrin drepur hann með útblæstri en þau stærri skýtur hann. Hann er vinur dýranna og vill frelsa þau frá þjáningum sínum. Hann er aftur á móti ekki eins miskunnsamur við eigendurnar. Hann refsar þeim sem hafa vanrækt dýrin sín.
Myndin Euthanizer hefur fengið lofsamlega dóma í Variety, Hollywood reporter og víðar. Hún var sýnd á RIFF síðasta haust.
Teemu verður viðstaddur sýninguna á Euthanizer í Bíó Paradís fimmtudagskvöldið 18. okt kl 20:00. Fjölmiðlar athugið. Vinsamlegast hafið samband við Hrönn Sveinsdóttur (s:6985186) til að taka viðtal við Teemu.
MYNDIRNAR SEM TILNEFNDAR ERU TIL KVIKMYNDAVERÐLAUNA NORÐURLANDARÁÐS 2018 ERU:
Kona fer í stríð (ÍS), Thelma (NO), Vetrarbræður (DK), Ravens (SWE) og Euthanizer (FI).
Einnig verða Hlynur Pálmason, leikstjóri Vetrarbræðra og Julius Krebs Damsbo, klippari Vetrarbræðra viðstaddir sýningu á myndinni á laugardaginn 20. október kl 20:00 í Bíó Paradís. Boðið verður upp á samtal við Hlyn og Julius um samstarf þeirra í Vetrarbræðrum, en þeir vinna nú að nýrri mynd í fullri lengd, Hvítur hvítur dagur. Steven Meyers, ráðgjafi hjá Kvikmyndamiðstöð mun stýra spjallinu, og við fáum innsýn í vinnubrögð Hlyns og Juliusar og fáum að vita meira um Hvítan hvítan dag.
Vinningshafinn verður tilkynntur við hátíðlega athöfn þriðjudaginn 30 . október 2018 í tengslum við þing Norðurlandaráðs í Osló, Noregi.
Skoða fleiri fréttir