Gleðitíðindi!
Mánudjass hefur verið á hrakhólum um skeið eftir að honum var úthýst af Húrra. En nú er gleði því Bíó Paradís hefur boðið Mánudjassinum í faðm Paradísar. Þar ætlar Mánudjassinn að standa vaktina í annarri hverri viku í allt sumar. Fyrsti mánudjassinn verður haldinn mánudaginn 3. júní og hefst um kl.21:00, svo verður það sama uppá teningnum allt sumarið fyrst og þriðja mánudag hvers mánaðar – fylgist nánar með dagskránni á Facebook síðunni hérna: Mánudjass
Mánudjassinn er djasshljómsveit eða djassviðburður sem átti heimavöll á skemmtistaðnum Húrra síðastliðin fimm ár. Þar komu upprennandi djass-tónlistarmenn saman á hverjum mánudegi undir handleiðslu Mánudjassbandsins og buðu nýja viku velkomna með þriggja tíma tónleikum. Þannig gerði Mánudjassinn leiðinlegustu daga vikunnar margfalt skemmtilegri.
Á vegferð sinni hefur Mánudjassbandið haldið eitthvað um 250 tónleika og árið 2017 gaf hljómsveitin út plötu sem finna má á Spotify. Hljómsveitin spilar alls konar tónlist og tekur aldrei með sér lagalista á svið heldur leyfir augnablikinu að tendra næsta lag.
Nú er Mánudjassinn kominn yfir í Bíó Paradís og allir eru hjartanlega velkomnir sem vilja gera það besta úr mánudagskvöldum.
Skoða fleiri fréttir