Fréttir

Heimsmarkmiðin í bíó!

02/03/2020

Íslandsbanki og UNRIC, Upplýsingaskrifstofa Sameinuðu þjóðanna í Brussel og Félag Sameinuðu þjóðanna standa í sameiningu að sýningu þriggja mynda og umræðum á eftir sem fjalla hver með sínum hætti um málefni sem rúmast innan Heimsmarkmiðanna um sjálfbæra þróun. Myndirnar verða allar sýndar í Bíó Paradís dagana 31. mars, 8. apríl og 22. apríl.

STÓRA SÚKKULAÐIMÁLIÐ – Sýnd 31. mars kl 20:00

Heimsmarkmið #12

Stóra súkkulaðimálið segir söguna af því hvernig spaug hollenskra sjónvarpsmanna vatt upp á sig og endaði með því að þeir byrjuðu að framleiða súkkulaði. Þeir sögðu barnaþrælkun sem oft viðgengst í súkkulaðibransanum stríð á hendur – og reyndu að stuðla að betri heimi, (súkkulaði)bita fyrir bita.

Gestur sýningarinnar er Ynzo van Zanten frá Tony´s Chocolonely og allir sýningargestir verða leystir út með gjöf: súkkulaði sem framleitt er án þrælahalds.

Umræður: Ynzo van Zanten talsmaður Tony´s Chocolonely, Ragna Sara Jónsdóttir hjá hönnunarmerkinu FÓLK, Kjartan Gíslason stofnandi Omnom súkkalaðis og Hrund Gunnsteinsdóttir framkvæmdastjóri Festu, miðstöðvar um samfélagsábyrgð

UNAÐUR KVENNA – Sýnd 8. apríl kl 20:00

Heimsmarkmið #5

Svissnesk-þýska heimildarmyndin Unaður kvenna (Female pleasure) eftir Barböru Miller dregur upp mynd af fimm hugrökkum, klárum og ákveðnum konum sem hver á sinn hátt hefur rofið þagnarmúr sem reistur hefur verið af samfélagi feðraveldisins og trúarhópum. Þær koma hver úr sínu heimshorni en þær Deborah Feldman, Leyla Hussein, Rokudenashiko, Doris Wagner og Vithika Yadav hafa hver um sig barist fyrir kynferðislegu frelsi og sjálfstæði kvenna og mætt harðri trúarlegri – og menningarlegri andspyrnu. Þær hafa mátt gjalda sigra sína dýru verði því allar hafa þær mátt þola opinbera smánun, hótanir og útskúfun.

Umræður: Þorgerður Einarsdóttir professor í kynjafyræði, Guðrún M. Guðmundsdóttir og mannfræðingur, Flóki Ásgeirsson lögfræðingur

STÆRSTA LITLA BÝLIÐ – Sýnd 22. apríl kl 20:00

Heimsmarkmið #12, 13 og 15

Bandaríska myndin Stærsta litla býlið (The Biggest Little farm) segir sögu John og Moly Chester en þau ákváðu að snúa baki við borgarlífi og hefja sjálfbæran búskap. En það reyndist hægara sagt en gert að lifa í samræmi við hugsjónir og í sátt og samlyndi við náttúruna og hverri ákvörðun fylgdi ný áskorun. Í Stærsta litla býlinu er brugðið upp nærmynd af lífkeðjunni og hún sýnd í nýju ljósi og spillir ekki fyrir frábær myndataka. Hani, hundur og svín verða vinir áhorfandans sem nagar á sér neglurnar þegar refir sitja um búið og kindurnar eru í hættu.

Umræður: Rakel Garðarsdóttir forsprakki Vakandi, Baldvin Jónsson áhugamaður um sjálfbærni og Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir leikkona og eigandi Sprota.

Nánar um Heimsmarkmiðin hér

 

Skoða fleiri fréttir