Fréttir

Tilnefningar til Kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs 2020

21/08/2020

Á Alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Haugasundi þann 18 ágúst 2020 var tilkynnt hvaða fimm kvikmyndir frá Norðurlöndunum fimm (Danmörk, Finnland, Ísland, Noregur og Svíþjóð) hljóta tilnefningu til Kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs 2020 – mjög eftirsótt verðlaun sem 17 kvikmyndir hafa hlotið síðan verðlaunin voru fyrst afhent árið 2002, en síðan hafa þau verið veitt árlega frá árinu 2005.

 

Kvikmyndirnar fimm sem tilnefndar eru til Kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs 2020 eru:

 

Ísland:          BERGMÁL (titill á ensku: Echo)

eftir Rúnar Rúnarsson (leikstjórn / handrit), Rúnar Rúnarsson, Live Hide og Lilja Ósk Snorradóttir (framleiðendur)

 

Danmörk:     UNCLE (titill á frummáli: Onkel)

eftir Frelle Peterson (leikstjórn / handrit), Marco Lorenzen (framleiðandi)

 

Finnland:      DOGS DON’T WEAR PANTS (titill á frummáli: Koirat eivät käytä housuja)
eftir Jukka-Pekka Valkeapää (leikstjórn / handrit), Juhana Lumme (handrit),       Aleksi Bardy og Helen Vinogradov (framleiðendur)

 

Noregur:       BEWARE OF CHILDREN (titill á frummáli: Barn)

eftir Dag Johan Haugerud (leikstjórn / handrit), Yngve Sæther (framleiðandi)

 

Svíþjóð:        CHARTER (titill á frummáli: Charter)

eftir Amanda Kernell (leikstjórn / handrit), Lars G. Lindtröm og Eva Åkergren (framleiðendur)

 

Upplýsingar um Kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs:

Markmið verðlauna Norðurlandaráðs, sem eru ein eftirsóttustu verðlaunin á Norðurlöndunum, er að auka áhuga á norrænu menningarsamfélagi og samstarfi um umhverfismál, svo og að vekja athygli á verkefnum sem skarað hafa fram úr á sviði lista eða umhverfismála. Kvikmyndaverðlaunin verða veitt mynd í fullri lengd sem framleidd er á Norðurlöndunum og gerð til sýningar í kvikmyndahúsum, ásamt því að hafa mikið listrænt gildi og eiga rætur í norrænni menningu að verulegu leyti, og skara fram úr hvað varðar listrænan frumleika og samtvinna og efla hina margvíslegu þætti formsins svo úr verði sannfærandi og heilsteypt verk.Verðlaunaféð nemur 350 þúsund dönskum krónum og skiptist jafnt milli handritshöfunda, leikstjóra og framleiðanda, þetta undirstrikar að kvikmyndagerð sem listgrein er fyrst og fremst afurð náins samspils þessara þriggja þátta.

Rökstuðningur íslensku dómnefndarinnar vegna tilnefningar Íslands:

Í Bergmáli eftir Rúnar Rúnarsson mætast örsögur sem gerast samtímis kringum jól og áramót, sem er bæði viðkvæmur og hátíðlegur tími. Tími sem hvetur fólk til að endurskoða líf sitt og vekur meiri söknuð en vanalega eftir fjarstöddum ástvinum. Hver saga hefur opið upphaf og opin endalok, hver og ein er eins og sneiðmynd af tilveru.

Bergmál fjallar um efnishyggju og neyslusamfélagið, samveru og einmanaleika, ást og ofbeldi, líf og dauða, sem hefur sinn tíma. Hinu trúarlega og hátíðlega er stillt upp gegn því lítilvæga og hversdagslega, sjálfu lífinu. Ennfremur dregur myndin athygli áhorfandans að umdeildari viðfangsefnum á borð við málefni flóttafólks. Bergmál er beitt og djúp greining á samfélagi okkar og þess mörgu lögum og frásagnaraðferðina má kalla ljóðrænt raunsæi, óð til hversdagsins, fegurðar hans og grimmdar. Þetta er afar íslensk mynd sem þó hefur algilda skírskotun.

Handritið er krökkt af fegurð og ljóðrænu, hver sena inniheldur eina, kyrrstæða töku, eitt fagurlega samansett og þaulhugsað sjónarhorn, sterkt myndmál og afburða kvikmyndagerð. Tónlistin er lágstemmd en þó áhrifamikil.

 

 

 

Skoða fleiri fréttir