Vegna fjölda áskorana verður boðið upp á aukasýningar á heimildamyndinni Í SKÓM DREKANS!
Það var á ári drekans (2000) sem Hrönn fær þá flugu í kollinn að gera heimildarmynd um fegurðarsamkeppni. Eins og svo margir, þá velti hún því fyrir sér hvað fólk gerði sem tæki þátt í slíkri keppni, það er hvernig það færi að því að „keppa“ í fegurð. Eina leiðin til að komast að því er að kynnast því af eigin raun. Hún skráir sig til keppni í nýrri fegurðarsamkeppni (Ungfrú Ísland.is) og tekur fljótlega stefnuna á sigur – því eins og hún segir sjálf; „aðalatriðið er ekki að vera með, heldur að vinna“.
Daginn fyrir frumsýningu myndarinnar var lögbann sett á myndina en æ síðan hefur hún haft áhrif í tengslum við tjáningarfrelsi og friðhelgi einkalífs samkvæmt skilgreiningu íslenskra laga.
Í Skóm Drekans var sýnd víða um heim og vann Edduverðlaunin sem besta íslenska heimildarmyndin árið 2002.