Matt Shepard is a friend of mine

Sýningatímar

Engar sýningar

  • Tegund: Heimildamynd/Documentary
  • Leikstjóri: Michele Josue
  • Ár: 2014
  • Lengd: 89 min.
  • Land: Bandaríkin
  • Frumsýnd: 14. Júní 2016
  • Tungumál: Enska

Hatursglæpir og mannréttindi

Bandaríska sendiráðið á Íslandi og vefmiðillinn GayIceland.is bjóða til sýningar á verðlaunamyndinni “Matt Shepard is a Friend of Mine” í Bíó Paradís þriðjudaginn 14. júní klukkan 17.30. Tilefnið er að júní mánuður ár hvert er tileinkaður LGBTI málefnum í Bandaríkjunum. Fylgst verður með atburðinum á Íslandi samtímis í um fjörtíu löndum. Frítt inn og allir velkomnir!

Myndin fjallar um líf Matthew Shepard, samkynhneigðan háskólanema sem var myrtur á hrottafenginn hátt í október 1998. Honum var rænt, misþyrmt og hann skilinn eftir bundinn við girðingu þar sem hann fannst nær dauða en lífi. Hann dó sex dögum síðar af áverkum sínum.

Rannsókn á morðinu leiddi í ljós hatursglæp sem byggðist á því að Matthew var samkynhneigður. Í kjölfarið á morðinu fóru foreldrar Matthews, Judy og Dennis, fyrir vitundarvakningu í Bandaríkjunum um hatursglæpi gegn hinsegin fólki. Barátta þeirra sem hvergi er nærri lokið varð meðal annars til þess að Barack Obama Bandaríkjaforseti skrifaði undir löggjöf gegn slíkum glæpum.

Í kvikmyndinni “Matt Shepard is a Friend of Mine” fjallar leikstjórinn Michele Josue, sem var náinn vinur hans, um málið og leitast við að draga upp heildstæða og raunsæa mynd af lífi Matthews. Þess má geta að myndin hefur hlotið lof gagnrýnenda jafnt sem áhorfenda og unnið til fjölda verðlauna á kvikmyndahátíðum.

Sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, Robert Cushman Barber, flytur ávarp fyrir sýningu myndarinnar og að sýningu lokinni gefst áhorfendum tækifæri að leggja nokkrar spurningar fyrir Randy Berry sem var á síðasta ári skipaður sérstakur sendifulltrúi Bandaríkjanna í málefnum hinsegin fólks, James Marsden framkvæmdastjóra The Matthew Shepard Foundation og leikstjóra myndarinnar Michele Josue. Þessir aðilar tengjast salnum í Bíó Paradís í gegnum fjarfundarbúnað ásamt Mark Bromley, formanni The Global Equality Council sem sér um að stýra pallborðsumræðum. Sérstakur stjórnandi viðburðarins í Bíó Paradís er Felix Bergsson. Hægt er að fylgjast með pallborðsumræðunum á netinu á Share.America.gov/LGBTIchat og taka þátt í eða fylgjast með vefumræðu með myllumerkinu

#LGBTIrights.

Sýningin er haldin í félagi við GayIceland, www.gayiceland.is, vefmiðil með áherslu á hinsegin málefni, fréttir og afþreyingarefni.

Aðrar myndir í sýningu