BERGMAN Í BÍÓ PARADÍS – SÉRSTÖK DAGSKRÁ TILEINKUÐ EINUM STÓRBROTNASTA LEIKSTJÓRA KVIKMYNDASÖGUNNAR. 24 KLUKKUSTUNDAR GJÖRNINGUR Í ANDDYRI OG ÁVARP FORSÆTISRÁÐHERRA – KONAN SEM KLIPPTI MARGAR ÁSTSÆLUSTU MYNDIR BERGMANS OG MARGT FORVITNILEGT Á DAGSKRÁ.
Í tilefni af hundrað ára afmæli Ingmar Bergmans býður Sænska sendiráðið í samstarfi við Bíó Paradís upp á sérstaka dagskrá til heiðurs leikstjóranum frá fimmtudeginum 30. ágúst til sunnudagsins 9. september. Sýndar verða fjórar valdar bíómyndir eftir meistara Bergman, boðið verður upp á pallborðsumræður í tengslum við myndirnar og sérstaka gesti. Einnig verður sett upp sýning í anddyri Bíó Paradísar með æviágripi Bergmans í máli og myndum ásamt vídeósýningu með 32 sjaldgæfum myndbrotum sem veita innsýn í líf og störf listamannsins. Á opnunardegi dagskránnar verður fluttur sérstakur listagjörningur til að heiðra bæði líf og dauða. Frítt er inn á alla viðburði BERGMAN Í BÍÓ PARADÍS og allir eru hjartanlega velkomnir.
Forsætisráðherra Íslands, Katrín Jakobsdóttir, setur dagskrána fimmtudaginn 30. ágúst kl 19:00 með ávarpi.
Sýnd verður kvikmyndin Sumarið með Moniku (Sommaren med Monika / Summer with Monika), mynd Bergmans frá 1953. Þetta er trúlega ein aðgengilegasta mynd leikstjórans en hefur fallið í skuggann af meistaraverkum sem hann gerði síðar á ævinni. Sumarið með Moniku fjallar á óvenju opinskáan og raunsæjan hátt um ástarsamband unglinganna Moniku og Harry, sem leikin eru af Harriet Andersson og Lars Ekborg. Mörg höfundareinkenni Bergmans eru þegar greinileg og gullfalleg myndatakan er í höndum Gunnars Fischer.
Í tilefni af opnun dagskránnar mun listamaðurinn Martin Lima De Faria flytja gjörning í anddyri Bíó Paradísar í heilan sólahring þar sem hann notast við gjallarhorn Bergmans til að láta fjöður dansa í vindi í hvert skipti sem barn fæðist á Landspítala Íslands. Með þessu vill De Faria fagna lífinu að hætti Bergmans, en hann verður í beinu sambandi við spítalann og mun framkvæma fjaðradansinn við hverja barnsfæðingu í 24 tíma samfleytt, frá miðnætti 29. ágúst til miðnættis 30. ágúst.
Í anddyrinu verður sýning um líf og störf Bergmans, auk sýningar á sjaldgæfum myndbrotum af ferli hans sem kvikmyndagerðarmanns. Framlag Bergmans sem kvikmyndagerðarmanns er talið vera eitt það mikilvægasta á 20. öldinni. Á rúmlega hálfri öld gerði Bergman um 60 kvikmyndir og yfir 170 leikhúsuppsetningar. Bergman hefur haft mikil áhrif á íslenska hugsuði, listamenn og höfunda. Við höfum safnað saman nokkrum tilvitnunum eftir landsþekkta íslendinga um Bergman og hengt upp í anddyri Bíó Paradísar. Meðal þeirra sem tjá sig um Bergman eru Katrín Jakobsdóttir, Tinna Gunnlaugsdóttir, Ágúst Guðmundsson, Hilmar Oddsson, Hlín Agnarsdóttir og Ólafur Egilsson.
Sunnudaginn 2. september kl 16:00 verður kvikmynd Bergmans Villtu Jarðarberin (Smultronstället / Wild Strawberries) frá 1957 sýnd í Bíó Paradís. Eftir sýningu verður boðið upp á pallborðsumræður um Bergman sem höfund.
Fimmtudaginn 6. september kl 18:00 verður kvikmyndin Fanný & Alexander (Fanny och Alexander / Fanny and Alexander) frá 1982 sýnd í Bíó Paradís að viðstaddri Sylviu Ingemarsson sem klippti myndina, en hún vann náið með Bergman og klippti 14 mynda hans. Sylvia klippti einnig Hvíta Víkinginn eftir Hrafn Gunnlaugsson. Sylvia mun kynna myndina og sitja fyrir svörum eftir sýninguna á Fanny och Alexander.
Sunnudaginn 9. september kl 16:00 verður kvikmyndin Haustsónatan (Höstsonaten / Autumn Sonata) sýnd. Fyrir sýninguna verða umræður um áhrif Bergmans á íslenska kvikmyndalist sem stjórnað verður af Oddnýju Sen kvikmyndafræðingi. Fjölmargir íslenskir kvikmyndagerðarmenn taka þátt í umræðunum.
Frekari upplýsingar um myndirnar og dagskrána eru hér á vefsíðu Bíó Paradísar (sjá hlekk fyrir neðan), og einnig verða sýningarviðburðirnir kynntir á Facebooksíðu bíósins.
http://bioparadis.is/vidburdir/bergman-i-bio-paradis/