Bíó Paradís hefur undanfarin ár staðið fyrir fræðslu í kvikmyndalæsi fyrir börn, unglinga og framhaldsskóla og er eina stofnunin utan skóla sem veitir slíka þjónustu. Oddný Sen kvikmyndafræðingur sér um fræðsluna. Hún felst í kynningum á kvikmyndum sem hafa alþjóðlega gæðastimpla, hafa skapað sér sess innan kvikmyndasögunnar og eru frá ýmsum þjóðlöndum. Myndirnar eru valdar í því augnamiði að beina athygli að málum eins og jafnrétti, mannréttindum, einelti, aðbúnaði barna um heim allan, gildi menntunnar og öðrum baráttumálum. Kennarar geta einnig nýtt sér sýningarnar í tengslum við mannkynssögu, tungumálakennslu og náttúrufræði. Hér má sjá nánar um fræðsluna á vef Bíó Paradís
Á undan sýningum eru sýndar stiklur um þróun myndmáls frá upphafi kvikmynda til okkar tíma, þróun kvikmyndatökuvélarinnar og sögu kvikmyndanna frá 1895 til okkar tíma. Bíó Paradís hefur nú þjónustað yfir 21.000 börn og unglinga með þessari starfsemi.
Á þessari önn bjóðum við upp á myndir á borð við Dagbækur heiðursins til að kanna aðbúnað stúlkna í framandi þjóðlöndum, tökum fyrir tímabil í sögu Ástralíu þar sem börn innfæddra voru tekin frá fjölskyldum sínum og látin þræla hjá hvítum í Rabbit Proof Fence og könnum kalda stríðið fyrir tilstilli íshokkís með myndinni Rauði herinn. Við kynnumst heillandi heimi hinnar frönsku Amelie, könnum fantasíumyndir eins og Fantastic Mr. Fox eftir Wes Anderson, Lísu í Undralandi eftir Tim Burton, Edward Scissorhands eftir sama leikstjóra og kryfjum hina frægu Festen eftir Thomas Vinterberg svo fátt eitt sé nefnt.
Sýningar eru á þriðjudögum og fimmtudögum klukkan 10:00 og 13:00, en sýningar fyrir framhaldsskóla eru á mánudögum klukkan 14:15. Þar geta framhaldsskólanemar kynnt sér klassískar perlur kvikmyndasögunnar og fá allt fræðsluefni þar að lútandi. Sýningar grunnskóla hefjast 15. september og sýningar framhaldsskóla þann 7. september.
Hér er dagskráin á vefnum fyrir grunnskóla http://bioparadis.is/wp-content/uploads/2015/09/Biowp_leidrett_haust2015.pdf
Hér er dagskráin á vefnum fyrir framhaldsskóla http://bioparadis.is/wp-content/uploads/2015/09/FRAMHALDSSKOLASYNINGAR-HAUSTONN-2015.pdf
Skoða fleiri fréttir