Fréttir

Jólapartísýningar helgina 8. – 10. desember

06/12/2017

Það verður trufluð stemmning alla helgina í Bíó Paradís þar sem við munum bjóða upp á jólapartísýningar:

FÖSTUDAGURINN 8. DESEMBER 

HOME ALONE

Myndin fjallar um átta ára gamla Kevin McCallister og ævintýri hans eftir að fjölskylda hans gleymir honum einum heima þegar hún heldur til Frakklands í frí yfir jólin. Þarf Kevin litli meðal annars að glíma við tvo treggáfaða innbrotsþjófa. Ein sú allra besta jólamynd allra tíma, skylduáhorf fyrir jólin!

Sýnd með íslenskum texta! 

GREMLINS

Myndin segir frá því þegar strákur í ógáti, brýtur þrjár mikilvægar reglur varðandi nýja krúttlega gæludýrið sitt, og leysir úr læðingi hjörð meinfýsinna og ógeðfelldra lítilla skrýmsla. Reglurnar eru eftirfarandi: 1. Ekki láta þau komast nálægt björtu ljósi. 2. Ekki láta þau blotna. 3. Og aldrei, aldrei gefa þeim að borða eftir miðnætti.

LAUGARDAGURINN 9. DESEMBER 

HARRY POTTER OG VISKUSTEINNINN – AUKASÝNING! 

Sannkölluð jólapartísýning fyrir alla fjölskylduna, á aukasýningu vegna fjölda áskorana 9. desember kl 14:30! Myndin er sýnd með íslenskum texta!

Harry Potter er 11 ára munaðarlaus strákur sem að hefur lengi vitað að það er eitthvað óvenjulegt við hann. Hann kemst brátt að því að hann er göldróttur inni í sér og kynnist glænýjum heimi og fær einnig inngöngu í Hogwarts galdraskólann. Hann eignast vinina Ron og Hermione, en vandræðin sem þau koma sér út í virðast tengjast einhverju samsæri tengdu atburðunum sem urðu foreldrum Harry að bana…. Myndin var tilnefnd til þrennra Óskarsverðlauna.

HOME ALONE 2 

Kevin McCallister er mættur aftur. Í þetta skiptið er hann í New York borg með nóg af peningum og kreditkortum, og ákveður að skemmta sér eins og hann getur, og breyta borginni í sinn eigin leikvöll. En Kevin er ekki einn lengi, því að hinir illræmdu bjánabandíttar, Harry og Marv, ennþá í sárum eftir síðustu viðskipti sín við Kevin, eru líka mættir á svæðið, og ætla núna fremja rán aldarinnar.

Myndin er sýnd með íslenskum texta! 

LOVE ACTUALLY

Love actually, rómantísk jólamynd sem hefð hefur skapast um að horfa á í desember.

Myndin fjallar um margar ótengdar persónur í jólaundirbúningi í London. Saman sýna þessar sögur ástina í öllum sínum myndum en um er að ræða geggjaða gamanmynd sem þú vilt ekki missa af. Í aðalhlutverkum eru margir þekktir leikarar á borð við Hugh Grant, Billy-Bob Thorton, Emmu Thomson, Allan Rickman og Liam Neeson.

SUNNUDAGURINN 10. DESEMBER

HARRY POTTER – OG LEYNIKLEFINN – AUKASÝNING! 

Harry er kominn á annað ár sitt í Hogwarts, en sem fyrr eru vandræðin ekki lengi að elta hann uppi. Árið byrjar illa þegar hann kemst að því að mælt er alfarið gegn því að hann fari í skólann að þessu sinni. Fyrr en varir fara ýmsar árásir á nemendur að koma í ljós og því nær sem Harry – ásamt vinum sínum – kemst sannleikanum, því fleiri hættur kemur hann sér í…

Sannkölluð jólapartísýning fyrir alla fjölskylduna, 10. desember kl 14:30! Myndin er sýnd með íslenskum texta! Aukasýning vegna fjölda áskorana! 

Skoða fleiri fréttir