Reimt á Kili: Uggur og örlög Reynistaðarbræðra
Sumarið 1780 riðu bræðurnir Bjarni og Einar Halldórssynir frá Reynistað í Skagafirði um Suðurland til fjárkaupa. Þeir lögðu upp norður Kjöl 28. október það ár en týndust ásamt fylgdarmönnum sínum þremur og öllum búsmala. Við Beinahól eða Líkaborg í Kjalhrauni suðaustur af Hveravöllum fundust árið eftir fé og hross í einni úldnandi kös og í tjöldum lík í litlu betra ástandi. Lík eins fylgdarmannanna fannst aldrei og lík bræðranna sjálfra ekki fyrr en mörgum áratugum síðar spölkorn frá, husluð í gjótu og grjóti velt ofan á.
Um fáa atburði í Íslandsögunni hafa spunnist jafn margar þjóðsögur, getgátur, hégiljur og draugasögur, jafn langvinn réttarhöld eða deilur síðla kvelds yfir staupi og neftóbakslús. Þjóðþekkt kvæði hafa gert bræðurna að yrkisefni, annálar, sagnaþættir, skáldsögur og langir greinaflokkar reifað efnið, hver með sína ítarlega rökstuddu samsæriskenningu eða alvitru einkainnsýn í innstu geðshræringar bræðranna. Heimildamynd þessi skipar sér með stolti í þennan hóp. Hún leitast ekki við að ráða gátuna um örlög þessara fornu ferðalanga heldur gerir þeim óhikað upp skoðanir og eignar þeim áhugamál, tiktúrur eða lesti, jafn í þessum heimi sem öðrum. Eftir stendur ljóslifandi mynd af mataræði Reynisstaðabræðra og þrálátum uggi.
Reimt á Kili er leikin heimildastuttmynd um samband íslendinga við sögur og sögu, um samband lifenda við dauða, um kynlíf afturgangna og nesti. Myndin reynir að fanga þá kyrrlátu gleði að gæða merkingu umhverfi sitt og arfleifð, sama hversu nöturlegt, óljóst og óskiljanlegt tilefnið er.