Sveitalífsmynd Lofts Guðmundssonar sem gerist á 19. öld.
Hún segir frá kotungssyni sem er sakaður um sauðaþjófnað, glæp sem á þeim tíma var talinn einn sá alvarlegasti.
Ungi maðurinn á sér andstæðinga sem ýta undir gruninn en fær einnig stuðning þegar á reynir. Inn í frásögnina fléttast auk þess ástarsamband sem gefur sögunni mýkri blæ.
Kvikmyndasafn Íslands hefur gert kvikmyndina upp í samstarfi við RÚV sem tók að sér endurhljóðsetningu myndarinnar.
Kjartan Darri Kristjánsson ljær Gunnari Eyjólfssyni sína rödd og í öðrum hlutverkum eru Pálmi Gestsson, Sigurður Sigurjónsson, Örn Árnason, Hanna María Karlsdóttir, Helga Braga Jónsdóttir, Þórey Birgisdóttir, Guðrún Gísladóttir, Arnar Jónsson, Hákon Jóhannesson og Þórhildur Rögnvaldsdóttir.
Leikstjóri er Þórhildur Þorleifsdóttir.
Upptökustjórn og hljóðblöndun annast Gísli Kjaran Kristjánsson.
Myndvinnslan er í höndum Jóns Stefánssonar, sérfræðings Kvikmyndasafnsins í stafrænum endurgerðum.
Sýnd í Bíótekinu sunnudaginn 14. desember kl 17:00. Spurt og svarað eftir sýninguna.