Bíó Paradís sýnir nýjar áhugaverðar kvikmyndir frá öllum heimshornum auk hverskyns eldri mynda erlendra sem innlendra, hýsir kvikmyndahátíðir og stendur fyrir fjölbreyttum kvikmyndatengdum viðburðum. Bíó Paradís er sannarlega heimili kvikmyndanna, fyrsta og eina listræna kvikmyndahúsið á Íslandi.
Bíó Paradís er sjálfseignarstofnun sem helgar sig kvikmyndamenningu og kvikmyndafræðslu á Íslandi. Hún er stofnuð og rekin af fagfélögum í kvikmyndagerð á Íslandi. Til að ná markmiðum sínum rekur menningarhúsið Bíó Paradís, kvikmyndahús og kvikmyndadreifingu í miðbæ Reykjavíkur, skipuleggur fjölbreytta kvikmyndaviðburði og heldur úti metnaðarfullri kvikmyndalæsisdagskrá fyrir börn og ungmenni.
Framtíðarsýn menningarhússins er að vera öflugasti vettvangur kvikmyndamenningar og kvikmyndafræðslu á Íslandi og efla sköpunargleði og gagnrýna hugsun barna, ungmenna og samfélagsins alls.
FRAMKVÆMDASTJÓRI
Hrönn Sveinsdóttir hronn@bioparadis.is
Hrönn starfaði um árabil við kvikmyndagerð og dagskrárgerð fyrir sjónvarp. Á þeim tíma hlaut hún m.a. Edduverðlaunin fyrir heimildamyndina Í skóm drekans.
Síðar nam hún stjórnmálafræði í New York. Að námi loknu tók hún við starfi siðameistara Sendiráðs Bandarikjanna á Íslandi og sinnti því starfi þar til hún tók við stöðu framkvæmdastjóra Heimilis kvikmyndanna í desember 2011.
DAGSKRÁRSTJÓRI
Ása Baldursdóttir asa@bioparadis.is
Ása er dagskrárstjóri, auk þess að sjá um kynningarmál. Ása hefur fjölbreytta náms- og starfsreynslu, þar sem hún hefur m.a. numið listræna ljósmyndun, sagnfræði, listfræði, blaða- og fréttamennsku, hagnýta menningarmiðlun ofl.
Hún hefur unnið sem verkefnastjóri dagskrár hjá Alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Reykjavík, unnið með Mánudagsbíó Háskóla Íslands, ritstýrt og séð um aldarafmælisvef Háskóla Íslands ásamt því að ritstýra frumkvöðlavefnum snoop-around.com ásamt kollega sínum og ljósmyndara Nönnu Dís.
MARKAÐSSTJÓRI
Aron Víglundsson aron@bioparadis.is
Aron er markaðsstjóri auk þess sem hann hefur umsjón með dreifingu. Aron hefur víðtæka menntun og starfsreynslu í markaðs- og kynningarmálum ásamt því að hafa umfangsmikla reynslu af útgáfu kvikmynda bæði hérlendis og erlendis.
VERKEFNASTJÓRI
Verkefnastjóri er Lísa Björg Attensperger lisa@bioparadis.is
Hún stundaði nám í hagnýtri menningarmiðlun við Háskóla Íslands og hefur verið stjórnandi Alþjóðlegrar Barnakvikmyndahátíðar í Reykjavík frá árinu 2021.
Auk þess hefur Lísa starfað við skipulagningu Franskrar kvikmyndahátíðar í Reykjavík og Þýskra daga. Þá hefur hún komið að samfélagsstarfi Bíó Paradís m.a. Miðvikudagsbíói og Hraðstefnumótum, þar sem hún hefur verið titluð “ástarmálastjóri”.
Lísa hefur brennandi áhuga á öllu því sem við kemur menningu og samfélaginu, og hefur einstaka hæfileika til þess að mynda sambönd og eiga samskipti við fólk með mismunandi bakgrunn.
REKSTRARSTJÓRI
Rekstrarstjóri er Óli Hjörtur oli.hjortur@bioparadis.is
Hann sér einnig um salarleigu bíósins, starfsmannamál og almenna viðburðastjórnun í bíóinu.
Óli Hjörtur er algjört skemmtana ljón og er þekktur hjá mörgum sem bar rekstrarstjóri í miðbæ Reykjavíkurborgar. Hann hefur einnig komið nálægt kvikmyndagerð sem aðstoðarleikstjóri og með framleiðandi. Óli hefur gífurlegan áhuga á heimildamyndagerð og hefur sem dæmi tvisvar sinnum verið með mynd á Skjaldborgar Kvikmyndahátíðinni.
Rekstrarstjóri í leyfi er Sigga Maija, siggamaija@bioparadis.is
Sími í miðasölu er 412 7711, midasala@bioparadis.is
Heimili kvikmyndanna ses og Bíó Paradís eru að Hverfisgötu 54, 101 Reykjavík. Bíó Paradís er meðlimur Europa Cinemas og CICAE frá 2012.
Bíó Paradís er samstarfsvettvangur flestra þeirra sem koma að kvikmyndamálum í landinu, innlendra dreifingaraðila, kvikmyndahátíða og skóla.
Reglulegar sýningar á perlum kvikmyndanna fyrir börn og unglinga fara fram í húsinu, þar sem markmiðið er að efla þekkingu og menntun á þessari mikilvægu listgrein. Nánar má lesa um kvikmyndafræðslu hér:
Stofnaðilar sjálfseignarstofnunarinnar Heimilis kvikmyndanna ses, sem rekur Bíó Paradís, eru fagfélög kvikmyndagerðarmanna (Samband íslenskra kvikmyndaframleiðenda, Félag kvikmyndagerðarmanna og Samtök kvikmyndaleikstjóra), Félag kvikmyndaunnenda og Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík (RIFF).
Það er Heimili kvikmyndanna ses sem rekur Bíó Paradís þar sem fagfélög kvikmyndagerðarmanna skipa stjórn.