Fréttir

Alþjóðleg Barnakvikmyndahátíð 2017 gekk frábærlega vel!

11/04/2017

Alþjóðleg Barnakvikmyndahátíð í Reykjavík var haldin í fjórða sinn dagana 30. mars – 09. apríl 2017 í Bíó Paradís.

Alls sóttu um 2.500 börn hátíðina og kenndi ýmissa grasa þar sem boðið var upp á leiklistarnámskeið fyrir börn, þar sem farið var yfir undirbúning fyrir áheyrnaprufur fyrir kvikmyndir, masterklassi um það hvernig tölvuteiknimyndir verða til auk annarra sérviðburða fyrir börn og unglinga.

Opnunarhátíðin var skemmtileg en töframaðurinn Jón Víðis tók á móti börnunum og Gunnar Helgason setti hátíðina. 

Kvikmyndin Mamman, Stelpan og Djöflarnir var frumsýnd á hátíðinni þar sem frítt var inn og allir velkomnir.

Bíó Paradís í samstarfi við Geðhjálp sýndi laugardaginn, 1. apríl kl. 16.00 sænsku kvikmyndina „Stelpan, mamman og djöflarnir“ (Flickan, Mamman och Demonerna). Með myndinni var athygli almennings vakin á sjónarhorni barna geðsjúkra ásamt því að kvikmyndin hefur mikilvægan boðskap að bera stuðningsneti barna í samfélaginu almennt. Fyrir sýningu myndarinnar fjallaði Hanna Styrmisdóttir, fyrrverandi listrænn stjórnandi Listahátíðar og aðstandandi, um kvikmyndina út frá listrænu sjónarhorni. Eftir sýningu hennar var efnt til stuttra umræðna með þátttöku Hönnu, Maggýjar Hrannar Hermannsdóttur, sérkennara og aðstandanda, og Möndu Jónsdóttur, hjúkrunarfræðings og deildarstjóra á sérhæfðri endurhæfingardeild á Kleppspítala.

Um 1.300 börn og unglingar nýttu sér skólasýningar virka daga hátíðarinnar þar sem frítt var inn og allir velkomnir.

Við getum ekki beðið eftir næstu hátíð, sem haldin verður janúar 2018. 

Skoða fleiri fréttir