Fréttir

Barn (Beware of Children) hlýtur Kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs 2020

27/10/2020

Nú rétt í þessu var tilkynnt í sérstökum sjónvarpsþætti á Rúv hvaða kvikmynd hlýtur Kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs 2020 en það var norska myndin Barn (Beware of Children), eftir Dag Johan Haugerud handritshöfund og leikstjóra og Yngve Sæther framleiðanda, sem hreppti hnossið í ár.

Kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs eru veitt mynd í fullri lengd sem framleidd er á Norðurlöndunum og gerð til sýningar í kvikmyndahúsum, ásamt því að hafa mikið listrænt gildi og eiga rætur í norrænni menningu að verulegu leyti, og skara fram úr hvað varðar listrænan frumleika og samtvinna og efla hina margvíslegu þætti formsins svo úr verði sannfærandi og heilsteypt verk. Verðlaunaféð nemur 350 þúsund dönskum krónum og skiptist jafnt milli handritshöfundar, leikstjóra og framleiðanda. Það undirstrikar að kvikmyndagerð sem listgrein er fyrst og fremst afurð náins samspils þessara þriggja þátta.

Barn hefst á því að í frímínútum í skólanum slasar hin 13 ára Lykke, dóttir meðlims í Verkamannaflokknum sem er áberandi í samfélaginu, bekkjarbróður sinn Jamie sem er sonur áberandi hægri pólitíkusar. Jamie lifir slysið ekki af og mismunandi frásagnir af því hvað í raun og veru gerðist eiga eftir að gera erfiðar aðstæður mun erfiðari og samfélagið þarf að takast á við áleitnar spurningar.

Úr rökstuðningi dómnefndar:

Þrettán ára barn deyr í kjölfar ósættis við samnemanda á skólalóð. Atvikið leiðir af sér aragrúa nýrra vangaveltna og mikla togstreitu meðal hinna fullorðnu aðstandenda barnanna og knýr fram atburðarásina í Barn, metnaðarfullri og umhugsunarverðri kvikmynd Dags Johans Haugerud. Haugerud kannar sambandið milli barns og fullorðins af innlifun og alvöruþunga og vekur ýmsar áleitnar spurningar. Hversu vel þekkja foreldrar og kennarar börnin sem þeir bera ábyrgð á? Að hve miklu leyti ber foreldrum skylda til að trúa börnum sínum? Að hve miklu leyti eiga þeir að vernda þau? Geta hagsmunir barnsins ávallt verið í fyrirrúmi? Og af hverju er verra að eitthvað hræðilegt hendi barn en fullorðna manneskju?… Dag Johan Haugerud er kvikmyndagerðarmaður með skýra og sérstæða sýn á heiminn og óvenju gott eyra fyrir samtölum. Í áranna rás hefur hann ræktað gjöfult samstarf, einkennt af hlýju og trúnaðartrausti, við marga af helstu leikurum Noregs og í Barn laða leikstjórinn og leikararnir fram það besta hver í öðrum. Þetta er blæbrigðarík mynd um það sem skiptir mestu máli.

Dag Johan Haugerud er farsæll rithöfundur, handritshöfundur og leikstjóri. Fyrsta mynd hans í fullri lengd, Som du ser meg (I Belong) var tilnefnd til Kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs 2013. Barn var frumsýnd á Venice Days kvikmyndahátíðinni 2019, hún hlaut gagnrýnendaverðlaun á Thessaloniki kvikmyndahátíðinni og verðlaun fyrir bestu norrænu kvikmyndina á kvikmyndahátíðinni í Gautaborg.

Kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs voru fyrst veitt árið 2002 og eru virtustu kvikmyndaverðlaun Norðurlandanna. Norðurlandaráð veitir ár hvert fimm verðlaun til þess að vekja athygli á bókmenntum, tungumáli, tónlist og kvikmyndum Norðurlandanna ásamt nýskapandi aðgerðum á sviði umhverfismála

 

Skoða fleiri fréttir