ÞEIR SEM ÞORA lýsir baráttu Eystrasaltsríkjanna, – Eistlands, Lettlands og Litháen, – í skjóli umbótastefnu Mikaels Gorbasjovs, fyrir endurreisn sjálfstæðis þeirra árin 1986 til 1991. Myndin fangar örlagaríka atburðarás sem fór af stað í höfuðborgum Eystrasaltsríkjanna, Vilnius, Riga og Tallinn, í janúar 1991, þegar Sovétherinn reyndi á grimmúðlegan hátt að kæfa anda frelsis og ganga milli bols og höfuðs á hreyfingum sjálfstæðissinna. Á þessari örlagastundu var utanríkisráðherra Íslands, Jón Baldvin Hannibalsson, eini vestræni utanríkisráðherrann sem heimsótti höfuðborgirnar þrjár og sýndi með því stuðning þjóðar sinnar í verki.
Persónuleg tengsl og sérlegur áhugi Jóns Baldvins á Sovétríkjunum voru helsti hvatinn. Hann var, ásamt danska utanríkisráðherranum Uffe Elleman Jensen, dyggasti stuðningsmaður Eystrasaltsríkjanna innan Sameinuðu þjóðanna, Nato og fleiri stofnanna og talaði máli þeirra á vettvangi alþjóðlegrar stjórnmálaumræðu þegar færi gafst. Þeir gerðu sér báðir grein fyrir því að alþjóðasamfélagið hafði í raun lítinn sem engan áhuga á þessum litla afkima Sovétríkjanna og voru jafnframt þeirrar skoðunar að innlimun Eystrasaltsríkjanna í Sovétríkin í seinni heimstyrjöldinni stæðist ekki lög. Vestrænu stórveldin voru á þessum tíma önnum kafin við að gæta annarra “mikilvægari” hagsmuna , sem voru stríðsrekstur í Írak og sameining Þýskalands, og þeim var jafnframt umhugað um að veikja ekki stöðu Gorbasjovs heima fyrir. Í kjölfar valdaráns í Moskvu í águst 1991 varð Ísland fyrsta ríki heims til að viðurkenna sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna. Í kjölfarið fylgdi hröð atburðarás og Sovétríkin heyrðu sögunni til í desember sama ár.
English
When Mikhail Gorbachev rose to power in 1985, his reform policy sparked an independence movement in the Baltic states. But as their cries for help were answered with silence from the international community, two small nations answered the call – Iceland and Denmark – motivated by the personal connections of their foreign ministers.