Nina et le secret du hérisson (Nína og leyndarmál broddgaltarins) laugardaginn 18. janúar kl 14:30
Fjölskyldusýning á þessari fallegu teiknimynd. Eftir sýningu býður franska sendiráðið börnum upp á léttar veitingar.
Líf Nínu gjörbreytist þegar faðir hennar missir vinnuna í kjölfar fjárdráttar verkstjóra verksmiðjunnar sem hann vinnur hjá. En Nína gefst ekki upp og með aðstoð vina sinna leggur hún af stað í spennandi ævintýraferð þar sem þau uppgötva leynda fjársjóði djúpt í viðjum verksmiðjunnar. Stórbrotið ævintýri þar sem ógleymanlegar uppgvötanir leiða Nínu og vini hennar í gegn um hættuslóðir.
Með röddum Audrey Tatou og Guillaume Canet.
Myndin er sýnd með íslenskum texta sem nemendur í frönskum fræðum við Háskóla Íslands þýddu úr frönsku.
Daaaaaali – sýning, matur og vín! föstudaginn 17. janúar kl 19:00
Frumsýning á Daaaaaali! – boðið upp á smakk á frönskum matvörum og víni frá La Boutique Design.
Í þessari skrautlegu og skemmtilegu kvikmynd úr smiðju Quentin Dupieux (Deerskin, Yannick) hittir franskur blaðamaður hinn goðsagnakennda súrrealista Salvador Dalí í tengslum við heimildarmynd sem aldrei varð að veruleika.
Kvikmyndin er einstakur óður til Dalí, þar sem brjálaðar hugmyndir, sjarmerandi kaos og djúpstæð listræn innsýn fléttast saman á einstakan hátt.
Við bjóðum áhorfendum í ferðalag þar sem súrrealismi og húmor mætast í fullkomnum samhljómi.
Eftir sýninguna verður boðið upp á smakk á frönskum matvörum og víni frá La Boutique Design!
Bíótekið – á Franskri kvikmyndahátíð!
Það verður franskur fókus í Bíótekinu þann 19. janúar.
Max et les ferrailleurs (1971)
Dramatísk spennumynd í leikstjórn Claude Sautet sem skartar kvikmyndastjörnunum Michel Piccoli og Romy Schneider í aðalhlutverkum. Sagan hverfist um áhugalausan og svekktan einkaspæjara sem gengur ekkert að handsama glæpamenn. Til að endurheimta æru sína ákveður hann að taka málin í sínar hendur og platar hóp smáglæpamanna til að fremja bankarán í þeim tilgangi að handsama þá.
Les choses de la vie
Myndin keppti um sjálfan Gullpálmann á kvikmyndahátíðinni Cannes árið 1970. Dramatísk frönsk kvikmynd í leikstjórn Claude Sautet. Myndin er byggð á skáldsögunni ,,Intersection’ eftir Paul Guimard frá 1967. Sagan segir frá Pierre, leiknum af Michel Piccoli, 45 ára gömlum arkitekt sem lendir í alvarlegu bílslysi. Þegar hann liggur slasaður rifjar hann upp líf sitt, sérstaklega sambönd sín við tvær konur: látna eiginkonu sína Catherine (Lea Massari) og ástkonu sína Helene (Romy Schneider).
César et Rosalie (1972)
Í leikstjórn Claude Sautet. Myndin segir frá ástarsambandi þriggja einstaklinga. César, sem er kaupmaður, Rosalie, sem er fráskilin og David, sem er fyrrum ástmaður Rosalie. Myndin fjallar um flókin sambönd og tilfinningalegar áskoranir sem þau standa öll frammi fyrir.Leikarar í myndinni eru stórstjörnur hvíta tjaldsins í Frakklandi, Yves Montand, Romy Schneider, og Sami Frey. Myndin er talin eitt af bestu verkum Claude Sautet.
Jack and the Cuckoo-Clock Heart: Kvöldstund með Mathias Malzieu miðvikudaginn 22. janúar kl 19:00
Jack fæddist árið 1874 í Skotlandi á kaldasta degi ársins. Vegna þessa fimbulkulda hætti hjarta hans að slá. Ljósmóðirin í Edinborg bjargar honum með því að setja klukku í stað hjarta og hann fær að búa hjá henni og hún hugsar um hann. En hann má ekki verða reiður eða spenntur því að þá gæti líf hans verið í hættu ef klukkan bilar. Og hvað þá að verða ástfanginn! Myndin er byggð á samnefndri bók eftir Mathias Malzieu.
All your Faces – signing á vali menntaskólanema laugardaginn 25. janúar kl 16:30
Val menntaskólanema á franskri kvikmynd var að þessu sinni Je verrai toujours vos visages (All your Faces) sem sýnd verður á Franskri Kvikmyndahátíð 2025.
Fórnarlömb ofbeldisglæpa og gerendur hittast í meðferðarhópi til að eiga samtal og læknast af áföllum sínum.
The Balconettes: Kvöldstund með Noémie Merlant laugardaginn 25. janúar kl 18:30
Þegar hitabylgja skellur á í hverfinu Marseille byrja þrjár stúlkur að daðra við nágranna sinn af svölunum. Úr verður að þau ákveða að fá sér drykk saman heima hjá honum seint um kvöld … en þá breytist allt!
Noémie Merlant (A portrait of a Lady on Fire) leikstýrir sinni annari kvikmynd, sem hún leikur einnig eitt aðalhlutverkið í, skrifar myndina með Celíne Sciamma.
Frumsýning á The Balconettes með Noémie Merlant viðstaddri, þar sem boðið verður upp á spjall í viðburðarröðinni ‘Kvöldstund með’, eftir sýninguna inn í salnum.
Kanadíska kvöldið: RU – Q&A og léttvínsglas sunnudaginn 26. janúar kl 19:00
Eftir hættulega sjóferð og dvöl í flóttamannabúðum í Malasíu fær unga víetnamska stúlkan Tinh og fjölskylda hennar hæli í Kanada. En fyrir Tinh reynist aðlögunin ekki auðveld, og hún stendur frammi fyrir ýmsum áskorunum á ókunnum slóðum.
Frönsk Kvikmyndahátíð í samstarfi við Kanadíska sendiráðið á Íslandi stendur fyrir kanadísku kvöldi þar sem þess áhrifaríka saga sem minnir á styrk og seiglu þeirra sem leita nýrrar vonar í fjarlægum löndum er sögð í kvikmyndinni RU.
Aðgangur ókeypis.