Fréttir

Jóhanna – Síðasta orrustan frumsýnd í Bíó Paradís

13/10/2015

Jóhanna- Síðasta orrustan verður frumsýnd á fimmtudag 15. október, en myndin fer í almennar sýningar í Bíó Paradís föstudaginn 16. október.

Um er að ræða heimildamynd um Jóhönnu Sigurðardóttur og síðustu mánuði hennar í embætti forsætisráðherra Íslands. Í myndinni er fylgst með störfum Jóhönnu og því sem gerist bak við tjöldin í Stjórnarráðinu. Kastljósinu er einkum beint að baráttu hennar og annarra fyrir því að fá Alþingi til að samþykkja nýja stjórnarskrá Íslands. Myndin hefst á landsfundi Samfylkingarinnar þegar Árni Páll Árnason tekur við af Jóhönnu sem formaður flokksins. Árn Páll boðar ný vinnubrögð og lætur af þeirri stefnu Jóhönnu að reyna að knýja stjórnarskrána í gegnum þingið og vill þess í stað skapa þverpólitíska samstöðu um að fresta hluta hennar til næsta kjörtímabils. Þessi stefna veldur miklum ágreiningi við þá sem vilja klára málið, jafnt innan Samfylkingarinnar og utan. Í kjölfarið verða mikil átök á þingi og í bakherbergjum um stjórnarskrármálið – og engin leið að vita hvaða endi það muni fá. Þetta er í fyrsta skipti sem heimildarmynd af þessari tegund er gerð hér á landi, þegar fylgst er með stjónmálamanni í valdastöðu og öllum þeim vendingum sem verða í meðferð þingsins á mikilvægu máli – eins og stjórnarskrá Íslands.

Leikstjóri myndarinnar er Björn B. Björnsson og er hann jafnframt handritshöfundur ásamt Elísabetu Ronaldsdóttur, sem klippir myndina. Kvikmyndatöku annaðist Jón Karl Helgason og tónlistin í myndinni er eftir Tryggva M. Baldvinsson. Framleiðandi er Reykjavík films.

Við viljum vekja athygli á nýrri stiklu sem nú er komin út fyrir myndina hana má sjá hér: 

Skoða fleiri fréttir