Fréttir

Klikkuð menning – Klikkaðar kvikmyndir – FRÍTT Í BÍÓ//FREE SCREENING – Crazy Culture

16/09/2019

Klikkuð menning sýnir sex kvikmyndir frá 19.-22. september – FRÍTT INN FYRIR ALLA! – klikkud.is

Á Klikkaðri menningu 19.- 22. september verða sýndar sex kvikmyndir í Bíó Paradís, þar sem leitast er við að skoða geðræn veikindi í marglita ljósi út frá listasögunni og listamönnunum, fólkinu sem glímir við andlegar áskoranir og aðstandendum þeirra.

Aðalmynd hátíðarinnar er Art &Mind, glæný frönsk/ensk heimildarmynd eftir Amélie Ravalec sem strax hefur hlotið verðskuldaða athygli. Myndin er ferðalag inn í heim lista, geðveiki og undirmeðvitundarinnar. Framsýnir listamenn og sköpunarþörfin eru tekin til skoðunar, allt frá listamönnum endurreisnarinnar til dagsins í dag. Á undan henni verður sýnd stuttmyndin Stimuli eftir Viktor Sigurjónsson, þar sem Ragnheiður Steindórsdóttir leikur eldri konu sem reynir að mynda tengsl við aðra í samfélagi sem kann ekki lengur að meta hana.

Í klassísku kvikmyndinni The Three Faces of Eve frá árinu 1957, segir frá Eve White, óframfærinni konu sem þjáist af höfuðverkja- og minnisleysisköstum. Við dáleiðslu reynist hún búa yfir fleiri en einni persónu. Joanne Woodward vann Óskarinn sem leikkona í aðalhlutverki fyrir þetta fjölþætta hlutverk.

Stelpan, mamman og djöflarnir er sænsk kvikmynd sem lýsir á mjög átakanlegan og um leið listrænan hátt, hvernig lítil stúlka þarf að takast á við versnandi geðheilsu einstæðrar móður sinnar; þola stöðugar skapbreytingar og furðuleg athæfi hennar.

Blindsone er norsk mynd sem fjallar um gráu svæðin í geðrænum veikindum; blindblettina sem erfitt er að koma auga á. Þetta er reynslusaga móður sem gerir sér grein fyrir að dóttir hennar á við mjög djúpstæðan andlegan vanda að etja. Myndin er tilnefnd til kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs 2019.

Í heimildarmyndinni Bipolarized: Rethinking Mental Illness er fylgst með Ross McKenzie sem er greindur með geðhvörf. Honum er ráðlagt af geðlækni sínum að taka geðlyfið lithium alla ævi til að halda einkennunum í skefjum. Lyfið veldur honum vanlíðan og Ross ákveður að leita leiða til að vinna bug á einkennunum með óhefðbundum lækningaraðferðum.

Teiknimyndin Loving Vincent sem fjallar um líf og dauða Van Goghs, er öll handmáluð með sömu tækni og verk þessa heimsfræga listmálara. Þar segir frá ungum manni sem kemur í bæinn þar sem van Gogh bjó áður en hann lést, og fer hann að rannsaka seinustu ævidaga hins þjáða listmanns. Myndin var tilnefnd til Óskarsverðlaunanna, Golden Globe og Bafta sem besta teiknimyndin árið 2018.

Sýningar hefjast kl. 16:00 og 18:00, föstudag til sunnudag – FRÍTT INN!
Sjá nánar í dagskrá hátíðarinnar á: klikkud.is – og einnig hér fyrir neðan:

FIM 19. sept
Kl. 18:00 – Stimuli + ART & MIND
FÖS 20. sept
Kl. 16:00 – Stelpan, mamman og djöflarnir (Flickan, mamman och demonerna)
Kl. 18:00 – Blind Spot (Blindsone)
LAU 21. sept
Kl. 16:00 – The Three Faces of Eve
Kl. 18:00 – Bipolarized: Rethinking Mental Illness
SUN 22. sept
Kl. 16:00 – Loving Vincent
Kl. 18:00 – Stimuli + ART & MIND

Skoða fleiri fréttir