Við erum í skýjunum eftir einstaklega vel heppnaða Alþjóðlega Barnakvikmyndahátíð í Reykjavík sem fór fram í Bíó Paradís dagana 5.-15.apríl 2018 í fimmta skipti.
Það var metaðsókn á hátíðina í ár en alls sóttu um 3250 börn hátíðina að þessu sinni! Hátíðin var opnuð með pompi og pragt þann 5. apríl síðastliðinn að viðstöddum forseta Íslands Guðna Th. Jóhannessyni, Elizu Reid forsetafrú og börnum auk Dags B. Eggertssonar borgarstjóra sem opnaði hátíðina. Vísinda Villi steig einnig á stokk og gerði tilraunir við agndofa undirtektir fjölda búningaklæddra barna og foreldra þeirra mættu á opnunarhátíðina. Opnunarmynd hátíðarinnar var Doktor Proktor og tímabaðkarið með íslenskri talsetningu sem hefur slegið í gegn.
Ólafur S.K. Þorvaldz hélt einstaklega vel heppnað námskeið í kvikmyndaleik á síðustu helgi hátíðarinnar. Þá var einnig boðið upp á námskeið í sketsaskrifum með Dóru Jóhannsdóttur leikkonu og leikstjóra á meðan hátíðinni stóð. Það var frítt inn á bæði námskeið og þau voru vel sótt. Að auki komi fjöldi skólabarna í Bíó Paradís en boðið var upp á fríar skólasýningar á meðan hátíðinni stóð.
Ágúst Guðmundsson og Einar Örn Einarssson (Manni) sátu fyrir svörum og sögðu sögur frá gerð Nonna og Manna þáttanna, en allir þættirnir voru sýndir á hátíðinni með íslensku tali. Lokamynd hátíðarinnar var Íslandsfrumsýning á kvikmyndinni Adam sem var sýnd fyrir fullu húsi. Fengu þau mæðginin María Sólrún leikstjóri og Magnús Maríuson aðalleikari myndarinnar frábærar viðtökur hjá áhorfendum og það voru áhugaverðar umræður eftir sýninguna sem María Reyndal leikstjóri stýrði.
Á síðasta degi hátíðarinnar lagði einnig fjöldi fólks leið sína í Bíó Paradís til þess að sjá Princess Mononoke, en japanska sendiráðið hélt sýninguna í samstarfi við Bíó Paradís og var boðið upp á að fá nafnið sitt skrautskrifað á japönsku af því tilefni sem fjölmargir nýttu sér.
Við getum ekki beðið eftir næstu barnakvikmyndahátíð sem verður haldin vorið 2019!
Skoða fleiri fréttir