Fréttir

Ótrúlega skrítinn apríl – Svartir Sunnudagar

03/04/2017
Árið 1985 gaf Re-Search út bókina Incredibly Strange Films eftir V. Vale og Andrea Juno. Bók þessi er biblía áhugamanna um undarlegar bíómyndir og er enn lesin víða um heim. Bókin rýnir í ýmsar undarlegar myndir sögunnar frá fersku sjónarhorni og inniheldur viðtöl við leikstjóra eins og Russ Meyer, Herchell Gordon Lewis, Ted V. Michaels og fleiri meistara undranna.

Svartir sunnudagar hafa ákveðið að tileinka þremur sunnudögum þessari helgu bók og hefja leikinn næsta sunnudag, 9. apríl kl 20:00, með kvikmyndinni Spider Baby, or The Maddest Story Ever Told eftir Jack Hill og er hún frá árinu 1967. Þessari mynd er gerð skil í bókinni góðu, þar sem henni er þannig lýst að ef Luis Bunuel hefði einhverntíman gert gamanþætti í sjónvarpi þá yrði það eitthvað í líkingu við Spider Baby. Jack Hill átti síðar eftir að gera garðinn frægan með “Blaxpoitation” myndum eins og Foxy Brown, Coffie og Switchblade Sisters.

Annan í páskum, 17. apríl, munu Sunnudagarnir svörtu svo sýna eina frægustu cult mynd allra tíma, Faster Pussycat, Kill Kill! eftir furðufuglinn Russ Meyer. Þessi mynd hefur verið í uppáhaldi manna eins og John Waters alveg frá því hún var frumsýnd árið 1965 og er hún enn sýnd í cult myndabíóum víða um heim. Myndin fjallar um þrjú lævís glæpakvendi sem vefja feðgum nokkrum um fingur sér í eftirsókn eftir skjótfengnum auði. Dauðasyndirnar sjö koma þarna allar uppá yfirborðið. Það er því vel við hæfi að þetta sé páskamynd Svartra sunnudaga í ár.

23. apríl verður svo sýnd myndin The Mask eftir Julian Hoffman frá 1961. Myndin fjallar um fornleifafræðing sem fær endurteknar martraðir tengdar grímu sem finnst í uppgreftri. Áður en hann fremur sjálfsmorð sendir hann grímuna til sálfræðingsins síns sem verður fljótlega dreginn inní martraðarheim grímunnar. Samnefnd gamanmynd með Jim Carrey er lauslega byggð á þessari mjög sérkennilegu hrollvekju.

Skoða fleiri fréttir