Fréttir

RIFF 2018 – Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík // Reykjavík International Film Festival

26/09/2018

RIFF – Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík – er einn stærsti og fjölbreyttasti menningarviðburðurinn á Íslandi. Þessi hátíð verður sú fimmtánda í röðinni og mun hún standa yfir frá 27. september – 7. október 2018. Dagskrá hátíðarinnar í heild sinni (raðað upp eftir dögum) er aðgengileg hérna: https://riff.is/dagskra/dagskra-eftir-dogum/

Í ellefu daga á hverju hausti flykkjast Íslendingar í bíó til að sjá það besta og ferskasta í alþjóðlegri kvikmyndagerð. Enn fremur býðst gestum að spjalla við leikstjóra um verk sín, sækja málþing og fyrirlestra, tónleika og listasýningar, og að sjá kvikmyndir við óhefðbundin skilyrði –  í sundi, í helli eða í stofunni hjá þekktum kvikmyndagerðarmanni!

Dagskráin

Síðustu ár hafa um 100 kvikmyndir í fullri lengd frá um 40 löndum verið sýndar á RIFF. Kvikmyndunum er skipt í nokkra flokka til að gera allt sem hentugast fyrir gesti hátíðarinnar. Flokkarnir hafa smám saman myndast og í dag eru þeir eftirfarandi:

Vitranir (keppnisflokkur um Gullna lundann, aðalverðlaun RIFF) – í Vitrunum tefla nýir leikstjórar fram sinni fyrstu eða annarri mynd og keppa um aðalverðlaun hátíðarinnar, Gullna lundann. Þessar myndir ögra viðteknum hefðnum í kvikmyndagerð og leiða kvikmyndalistina á nýjar og spennandi slóðir.

Fyrir opnu hafi – á hverju ári þyrla sömu myndirnar upp ryki hér og þar um heiminn. Þetta eru meistarastykki sem eru sum hver úr smiðju þekktra kvikmyndagerðarmanna á meðan önnur koma áhorfendum algjörlega í opna skjöldu.

Önnur framtíð – beinir sjónum að mikilvægum heimildarmyndum sem varpa ljósi á helstu málefni líðandi stundar er snerta samskipti manns og náttúru.

Heimildarmyndir – verða sífellt vinsælli. RIFF sýnir heimildarmyndir um tónlist, list, menningu, heiminn og tækni og svo mætti lengi telja.

Sjónarrönd – kvikmyndagerð ákveðins lands er í sviðsljósinu á hverri hátíð. Árið 2017 var það Finnland en í ár 2017 verða það Eystrasaltslöndin.

Upprennandi meistari – þessi flokkur veitir innsýn inn í störf kvikmyndagerðarmanns sem er farinn að vekja athygli fyrir verk sín og er af mörgum talinn upprennandi meistari. Valeska Grisebach var upprennandi meistari RIFF 2017.

Heiðurverðlaunahafi – RIFF veitir kvikmyndaleikstjóra verðlaun fyrir æviframlag til kvikmyndalistarinnar. Af því tilefni býðst hátíðargestum að sjá sígildar kvikmyndir leikstjórans. Heiðurgestur RIFF 2018 er Jonas Mekas.

Gullna eggið – Myndir frá þátttakendum í Reykjavík Talent Lab eru sýndar og keppa um verðlaunin Gullna eggið.

Íslenskar stuttmyndir

Alþjóðlegar stuttmyndir

 

Frekari upplýsingar um myndirnar og dagskrána má finna á heimasíðu RIFF á riff.is eða í dagskrárbæklingi hátíðarinnar hér fyrir neðan:

Skoða fleiri fréttir