Skjaldborg í Bíó Paradís!

Skjaldborg í Paradís – Perlur úr dagskrá Skjaldborgar 2023 í Bíó Paradís!

Skjaldborg 2023 var haldin á Patreksfirði um hvítasunnuhelgi og laugardaginn 16. september verða valin verk af Skjaldborg sýnd í Bíó Paradís.

Skjaldborg er þekkt fyrir að bjóða upp á heimildamyndaveislu á Patreksfirði þar sem gæðastundir í Skjaldborgarbíói, skrúðganga, fiskiveislur, limbó og vornóttin á Patreksfirði mynda umgjörð um hinn töfrandi Skjaldborgaranda. Misstirðu af Skjaldborg í ár? Nú er heppnin með þér því hér kemur ómótstæðileg sending að vestan.

Helgin hefst með Masterclass með Mörtu Andreu, framleiðanda og ráðgjafa við þróun heimildamynda, föstudaginn 15. September kl. 10:00-13:00. Masterclassinn er haldinn í samstarfi við höfundasmiðjur SKL í umsjón Yrsu Roca Fannberg.

Laugardaginn 16. September kl. 13:30 verða haldnar pallborðsumræður um framtíð heimildamyndagerðar á Íslandi og seinnipartinn verða perlur úr dagskrá nýliðinnar Skjaldborgar sýndar í almennum sýningum í Bíó Paradís. Verkin sem sýnd verða eru: Heimaleikurinn sem hlaut Einarinn áhorfendaverðlaun Skjaldborgar og Skuld sem hlaut hvatningaverðlaun dómnefndar Skjaldborgar, sem báðar eru heimildamyndir í fullri lengd og sýndar verða í sér dagskrárhólfi fyrir sig auk stuttu heimildaverkanna Konni, Hlemmur Mathöll, Super Soldier og Uppskrift: Lífið eftir dauðann sem sýnd verða saman í dagskrárhólfi. Aðstandendur verka munu sitja fyrir svörum áhorfenda að lokinni sýningu.

Þátttakendur í pallborðinu verða Gísli Snær Erlingsson, forstöðumaður Kvikmyndamiðstöðvar Íslands, Helga Brekkan, ráðgjafi við Kvikmyndamiðstöð Íslands, Margrét Jónasdóttir, aðstoðardagskrárstjóri RÚV, og höfundar og framleiðendur innan heimildamyndafagsins á Íslandi. Stjórnandi pallborðins verður Kristín Andrea Þórðardóttir.

Við hvetjum allt fagfólk, áhugafólk um heimildamyndir og forvitna til að mæta í bíó!

Miðaverð: 2.190 kr. fyrir hvert dagskrárhólf en frítt er á masterclassan og pallborðsumræðurnar