Fréttir

Take the boat – frísýning á vegum Íslandsdeildar Amnesty International

15/01/2016

Íslandsdeild Amnesty International stendur að sýningu heimildamyndarinnar, Take the boat (2015), í Bíó Paradís miðvikudaginn 27. Janúar kl. 20. Frítt verður inn og allir velkomnir!
Myndin segir frá átakanlegri sögu fimm einstaklinga á Írlandi sem orðið hafa fyrir barðinu á harðneskjulegri fóstureyðingu á Írlandi. Ein þeirra er Gaye Edwards en hún verður gestur Íslandsdeildar samtakanna á sýningu myndarinnar, ásamt Sorcha Tunney yfirmanni herferðadeildar Amnesty á Írlandi og Camille Hamet framleiðanda myndarinnar og kvikmyndagerðakonu.

Þegar Gaye Edwards var gengin 20 vikur á sinni fyrstu meðgöngu uppgötvaðist að barnið myndi ekki lifa eftir fæðingu. Þar sem fóstureyðing er ólögleg á Írlandi í öllum tilvikum nema þegar líf konu er í stórkostlegri hættu, var þeim tjáð að Gaye yrði að ganga fulla meðgöngu, að enga aðstoð væri að finna í landi þeirra. Eiginmaður Gaye, Gerry Edwards lét þau orð falla þegar ljóst var að þau hjónin yrði að flýja landið eins og glæpamenn í leit að aðstoð, „Við fylltumst bæði mikilli reiði. Okkur leið eins og við værum algerlega ein og yfirgefin. Okkur fannst heilbrigðisstarfsfólk ekki aðeins bregðast okkur heldur landið okkar. Okkur voru ekki einu sinni veittar nauðsynlegar upplýsingar. Þegar við fórum að kanna hvert við gætum leitað eftir fóstureyðingu í London leið okkur eins og glæpamönnum að sýsla á svarta markaðinum jafnvel þó við ættum rétt á að ferðast og rétt á upplýsingum.”

Að sýningu lokinni munu gestir Íslandsdeildarinnar fjalla um gerð myndarinnar og fóstureyðingarlöggjöfina á Írlandi, auk þess að standa fyrir svörum.

Nánar um fóstureyðingarlöggjöfin á Írlandi.

Löggjöf um fóstureyðingar á Írlandi er ein sú strangasta í heimi þar sem fóstureyðing er aðeins leyfð þegar líf konu eða stúlku er í mikilli hættu. Hvorki konur sem verða þungaðar í kjölfar nauðgunar eða sifjaspells né konur sem eiga á hættu að glata heilsu sinni vegna þungunar eiga kost á fóstureyðingu á Írlandi. Þá mega konur ekki leita sér fóstureyðingar þegar um alvarlega fósturgalla ræðir eða fóstrið er ekki lífvænlegt. Írsk stjórnvöld brjóta á mannréttindum kvenna og stúlkna með því að banna fóstureyðingar í þessum tilvikum. Þá er ekki skýrt í írskum lögum hvað telst til lífshættu á meðgöngu eða heilsubrests þungaðra kvenna og stúlkna og setur það heilbrigðistarfsfólki mjög þröngar skorður. Spurningin, hvenær eru konur og stúlkur nægilega dauðvona á meðgöngu til að unnt sé að grípa inn í, brennur því á mörgum læknum og heilbrigðisstarfsfólki.

Samkvæmt lagabreytingum á stjórnarskrá Írlands sem gerð var árið 1983 er líf fósturs jafnrétthátt lífi móður. Raunveruleikinn er sá að líf fóstursins hefur meira vægi en líf móðurinnar. Lögin neyða að minnsta kosti fjögur þúsund þungaðar konur og stúlkur á hverju ári til að ferðast utan Írlands til að leita sér fóstureyðingar eða tíu til tólf konur og stúlkur á dag, með tilheyrandi andlegum og fjárhagslegum kostnaði. Flestar eru á aldrinum 20-34 ára. Fjölmargar konur og stúlkur sem ferðast utan Írlands í leit að fóstureyðingu hafa tjáð Amnesty að skömmin sé mikil og þeim líði eins og glæpamönnum.

Konur og stúlkur sem geta ekki ferðast til annarra landa fá ekki aðgang að nauðsynlegri læknisþjónustu á Írlandi eða þurfa að hætta á hegningu leiti þær sér ólöglegrar fóstureyðingar heima fyrir. Konur geta átt yfir höfði sér allt að fjórtán ára fangelsisdóm sæki þær fóstureyðingu á Írlandi og heilbrigðisstarfsfólk sem aðstoðar konur í þessum tilgangi er undir sömu sökina selt. Heilbrigðisstarfsfólk veigrar sér jafnvel við því að veita konum og stúlkum upplýsingar um fóstureyðingar þar sem slíkt getur kallað á kæru fyrir að „stuðla að” fóstureyðingum en sekt við því getur varðað allt að 600.000 íslenskum krónum.

Írland, Andorra, Malta og San Marino eru einu löndin í Evrópu sem banna konum að leita sér fóstureyðingar jafnvel þegar um nauðgun er að ræða, alvarlega fósturgalla eða þungun stefnir heilsu þeirra í hættu.

Refsivæðing fóstureyðinga er skýrt mannréttindabrot.

Á síðasta ári hóf Íslandsdeild Amnesty Internatonal átak þar sem þrýst var á forsætisráðherra Írlands að afglæpavæða fóstureyðingar í landinu og að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um breytingar á stjórnarskrá landsins sem bannar fóstureyðingar. Jafnframt skoraði Íslandsdeild samtakanna á íslensk stjórnvöld að beita sér fyrir afglæpavæðingu fóstureyðinga í landinu.

 

Skoða fleiri fréttir