Fréttir

Upplýsingar um stöðuna í Bíó Paradís

31/01/2020

Kæru kvikmyndahúsagestir og velunnarar,

Um leið og við þökkum stuðninginn á þessu 10 afmælisári Menningarhússins Bíó Paradís þá er komin upp sú staða að bíóhúsinu verður lokað þann 1. maí n.k. Starfsemin er í fullum gangi og gríðarlega metnaðarfull dagskrá í boði, Frönsk Kvikmyndahátíð er í fullum gangi og framundan eru stórkostlegar frumsýningar á nýjum alþjóðlegum stórmyndum, Stockfish Kvikmyndahátíðin, Alþjóðleg Barnakvikmyndahátíð í Reykjavík er framundan sem og hinir gríðarlega vinsælu Þýsku kvikmyndadagar. 

Árskort í bíóið eru nú ekki lengur til sölu og þeir sem eiga kort geta haft samband við miðasölu Bíó Paradís sem er opin daglega frá kl 17:00 og fengið hluta endurgreiddan eftir 1. maí nk. Við hvetjum alla korthafa til að nýta kortið vel, enda frábær dagskrá í gangi og framundan.

Þó skal tekið fram að forsvarsmenn bíósins eru að leita leiða til þess að halda starfseminni gangandi -því hvetjum við fólk til að fylgjast vel með.

Það hefur verið mikill uppgangur hjá Bíó Paradís frá opnun 2010. Það hafði aldrei verið listrænt bíóhús á Íslandi áður en fagfélög í kvikmyndagerð stofnuðu þetta fyrsta menningarhús í miðbæ Reykjavíkur eftir að Regnboganum var lokað.

Bíó Paradís býður upp á kvikmyndafræðslu fyrir öll skólastig, er heimili íslenskra kvikmyndagerðarmanna ásamt því að vera sýningarvettvangur fyrir Kvikmyndaskóla Íslands, íslenskar kvikmyndir í sinni breiðustu mynd og býður upp á kvikmyndamenningu frá öllum heimshornum, leggur ríka áherslu á sýningu á Evrópskum verðlaunakvikmyndum sem og að halda metnaðarfullar Alþjóðlegar kvikmyndahátíðar á borð við Stockfish og Alþjóðlega Barnakvikmyndahátíð í Reykjavík sem er sú fyrsta og eina sinnar tegundar. Svo mætti telja alla kvikmyndadagana t.a.m. þýska, pólska, rússneska og japanska kvikmyndadaga sem og Frönsku Kvikmyndahátíðina sem nú fagnar 20 ára afmæli.

Bíó Paradís er meðlimur í CICAE samtökum listrænna kvikmyndahúsa og Europa Cinemas samtakanna sem telja 1170 kvikmyndahús í 68 löndum.

Skoða fleiri fréttir