Úti að aka – Á reykspúandi kadilakk yfir Ameríku.
Frumsýnd í Bíó Pardís 27. maí.
„ÚTI AÐ AKA – Á reykspúandi kadilakk yfir Ameríku“
er heimildamynd um ferð rithöfundanna Einars Kárasonar og Ólafs Gunnarssonar, sem létu draum sinn rætast um að fara þvert yfir Ameríku eftir Route 66 á 1960 árgerð af kadilakk og skrifa um það bók.
Með í för voru útgefandinn Jóhann Páll Valdimarsson og kadda-sérfræðingurinn Steini í Svissinum ásamt Sveini M. Sveinssyni kvikmydagerðarmanni í Plús film sem festi ævintýrið á filmu.
Í myndinni er fylgst með upplifun félaganna á ferðalaginu og hvað varð rithöfundunum að innblæstri við skrif bókar með sama nafni sem kom út haustið 2006. Þulartexti myndarinnar er unninn upp úr áðurnefndri bók og lesinn af rithöfundunum sjálfum. Í myndinni er skyggnst inn í hugarheim þessara tveggja þekktu rithöfunda og þeir upplýsa áhorfendur um aðferðir sínar við öflun efnis og skrif bóka.
Ekki gekk allt upp samkvæmt plani og lýsir eftirfarandi setning Ólafs úr myndinni ástandi bílsins sem keyptur var til fararinnar ágætlega: „Mér var hugsað til bílasalans illræmda sem seldi mér bílinn og ég vonaði að það stæði í honum kótiletta sem hrykki ekki upp úr honum fyrr en sjálfur Andskotinn berði hann í bakið í Helvíti.“ Jóhann Páll hafði á orði að hann hyggðist gefa sjálfur út bók að ferð lokinni, sem fjallaði um hvernig lifa skuli af slíka helreið með 4 geðsjúklingum þvert yfir Ameríku sem yrði notuð við kennslu í geðhjúkrunarfræði í framhaldsskólum landsins og Einar sagðist aldrei hafa verið á ferðalagi með jafn sóber gengi á ævi sinni.
Oft stóðu mælar andlegrar spennu í botni þegar ferðafélagarnir sátu sem í reykofni í gamla kaddanum og hægt var að rekja olíuslóðina á milli verkstæða. Missið ekki af skemmtilegri heimildamynd þar sem skyggnst er inn í hugarheim rithöfundanna Einars Kárasonar og Ólafs Gunnarssonar á helreið þeirra þvert yfir Ameríku. „ÚTI AÐ AKA“ frumsýnd í Bíó Paradís 26. maí 2016 og fer í almennar sýningar eftir það.
Myndina gerir Sveinn M. Sveinsson.
Tónlist er að mestu eftir Krumma Björgvins og Daníel Ágúst Haraldsson af diskinum ESJU frá 2008.
Framleitt af Plús film ehf. 2016 sem fagnar nú 30 ára starfsafmæli í bransanum á Íslandi.
Fer í almennar sýningar föstudaginn 27. maí í Bíó Paradís.
Skoða fleiri fréttir