Fréttir

Vinsælasta íslenska heimildarmynd ársins – Stúlkurnar á Kleppjárnsreykjum

28/10/2015

Vegna mikillar eftirspurnar hefur sýningum á heimildarmyndinni Stúlkurnar á Kleppjárnsreykjum eftir Ölmu Ómarsdóttur verið fjölgað. Heimildarmyndin Stúlkurnar á Kleppjárnsreykjum er mest sótta Íslenska heimildarmynd ársins.

Í síðustu viku var myndin þriðja mest sótta íslenska kvikmyndin, á eftir Everest og Þröstum, og var mest sótta heimildarmynd vikunnar. Myndin hefur hlotið einróma lof. Hún hefur verið sýnd við góðar viðtökur í Bíó Paradís og sýningum hefur verið fjölgað vegna mikillar eftirspurnar. Í kjölfar sýninga á Stúlkunum á Kleppjárnsreykjum hefur verið lögð fram fyrirspurn á Alþingi um hvort rannsaka eigi þær aðgerðir yfirvalda sem fjallað er um í myndinni.

Heimildarmyndin Stúlkurnar á Kleppjárnsreykjum hefur vakið mikla athygli undanfarið, en hún fjallar um afskipti stjórnvalda af samböndum kvenna í Reykjavík við erlenda hermenn á árum seinni heimsstyrjaldarinnar. Í pallborðsumræðunum var rætt um mannréttindi og kvenréttindi, um þann ugg sem samgangur íslenskra kvenna við erlenda hermenn vakti, orsakir hans og afleiðingar, og um þá hugmynd sem fram hefur komið að framganga lögreglu og ríkisvalds við íslenskar konur á stríðsárunum verði rannsökuð, líkt og gert hefur verið í málum vistheimila ríkisins.

„Þetta er frábær mynd!“ – Máni Pétursson, Harmageddon

„Ótrúlega mögnuð mynd!“ – Sigmar Guðmundsson, Morgunútvarp Rásar 2

„Alma Ómarsdóttir hefur unnið þarft verk með gerð þessarar myndar.“ – Eggert Skúlason, DV

„Húrra fyrir Ölmu Ómarsdóttur og tímabæru framtaki hennar að draga þennan viðbjóð fram í dagsljósið.“ –Ingunn Sigmarsdóttir, knuz.is

Skoða fleiri fréttir