Bráðum verður bylting!

Sýningatímar

Engar sýningar

  • Tegund: Heimildamynd/Documentary
  • Leikstjóri: Hjálmtýr Heiðdal og Sigurður Skúlason
  • Handritshöfundur: Anna K. Kristjánsdóttir, Hjálmtýr Heiðdal og Sigurður Skúlason
  • Ár: 2018
  • Lengd: 72 mín
  • Land: Ísland
  • Frumsýnd: 11. Október 2018
  • Tungumál: Íslenska

Árið 1970, í kjölfar mikilla efnahagsþrenginga, var pólitískt andóf fyrirferðarmikil í íslensku samfélagi. Tveir atburðir stóðu upp úr: sendiráðstakan í Stokkhólmi í apríl og sprenging stíflu í Laxá. Þarna voru á ferð róttækir námsmenn og róttækir bændur. Á sama tíma gripu konur til róttækari baráttuaðferða og Rauðsokkahreyfingin var stofnuð.

Í myndinni er fjallað um baráttu íslenskra námsmanna á sjöunda áratugnum fyrir bættum kjörum og betra lífi. Námsmönnum hafði fjölgað mjög og stór hluti þeirra sótti framhaldsnám við erlenda skóla. Námslán voru af skornum skammti og voru eingöngu ætluð til að duga fyrir 35% af framfærsluþörf námsmannanna. Afganginn urðu þeir að sækja til foreldra og banka. En það áttu ekki allir efnaða foreldra eða höfðu aðgang að bankalánum. Baráttan fyrir betra lánakerfi var því jafnframt barátta fyrir jöfnuði til náms. Hagsmunabarátta námsmanna hafði verið einskorðuð við eigin hagsmuni, en með vaxandi róttækni æskufólks í heiminum teygði baráttan sig æ lengra yfir á önnur svið. Menn fóru að setja spurningarmerki við sjálfa þjóðfélagsgerðina og alþjóðamál urðu hluti af heimsmynd æskunnar á þessum tímum umróts og átaka.

Það var ekki síst stríðið í Víetnam og fjörbrot nýlendustefnunnar sem blésu í glæður mótmælanna. Vesturlönd urðu vettvangur baráttunnar sem var kennd við árið 1968. Fjöldi námsmanna taldi að það þyrfti að breyta samfélagsgerðinni og berjast gegn heimsvaldastefnu Vesturveldanna til þess að varanlegur árangur næðist í baráttunni fyrir bættum lífsgæðum.

Barátta íslenskra námsmanna tók á sig ýmsar myndir og náði hámarki í róttækustu aðgerð þeirra – sendiráðstökunni í Stokkhólmi þann 20. apríl 1970, þegar ellefu námsmenn fóru inn í íslenska sendiráðið og lýstu því yfir að sósíalísk bylting á Íslandi væri nauðsyn og drógu rauðan fána að húni.

Bráðum verður bylting! verður frumsýnd 11. október. 

Ítarefni má finna hér: www.seylan.is/Bradum_kemur_bylting.html

 

English

This is the story of the ’68 generation in Iceland. Icelanders who were participants in the turmoil that characterized this period tell of their experience, their background and explain the motives behind when thousands of young people fought for their values​ in defiance of the prevailing attitudes of previous generations.

You say you want a revolution! premiers on October 11th.

Aðrar myndir í sýningu