Demain

Sýningatímar

Engar sýningar

  • Tegund: Heimildamynd/Documentary
  • Leikstjóri: Cyril Dion, Mélanie Laurent
  • Ár: 2015
  • Lengd: 118 min
  • Land: Frakkland
  • Frumsýnd: 7. Júní 2016
  • Tungumál: Á ensku og á frönsku með enskum texta
  • Aðalhlutverk: Anthony Barnosky, Olivier De Schutter, Cyril Dion

Hvernig væri ef einhver tæki sig nú til og sýndi okkur allt það sem verið væri að gera heiminum til gagns í stað þess að klifa á heimsósóma á borð við fátækt, hungur, ofneyslu og ójöfnuð? Þetta er hugmyndin að baki frönsku verðlaunamyndinni Demain, sem sýnd verður þriðjudaginn 7.júní og fylgja umræður á eftir.

Myndin er sýnd í tilefni af Alþjóða umhverfisdeginum 5.júní í samvinnu Sameinuðu þjóðanna, franska sendiráðsins á Íslandi og Bíó Paradís með stuðningi utanríkisráðuneytisins. „Á morgun”  (Demain) hefur slegið í gegn víða um heim. Meir en ein milljón manns hefur séð myndina og 150 þúsund manns fylgjast með Facebooksíðu hennar. Leikstjórarnir Melanie Laurent og Cyril Dion fengu César, frönsku kvikmyndaverðlaunin fyrir bestu heimildarmyndina á dögunum.

Þótt ótrúlegt megi virðast hefur þeim tekist að gera bráðskemmtilega mynd um helstu vandamál heims, enda er einblínt á lausnir, fremur en að mála skrattann á vegginn. Segja má að sú leið sé farin í myndinni að í stað þess að tíunda hversu ómöguleg staða heimsmála og tala um „hvað við getum gert”, er sýnt „það sem vel er gert.” Farið er um allan heim í leit að dæmum um það sem vel er gert og þar á meðal komið við á Íslandi. „Það er kominn tími til að við hættum að bíða eftir þvið að leiðtogar komi með lausnirnar færandi hendi,” segir leikstjórinn Cyril Dion. „Ef eitthvað á að breytast verður fólkið sjálft að fylkja liði og skapa þrýsting á kjörna fulltrúa og við þurfum líka nýja fulltrúa sem þoka hugmyndum morgundagsins fram á við.”

Fram kemur í máli margra að vandamál heimsins séu svo stór og svo mörg að fólk verði brjálað af því að brjóta heilann um þau og fyllist vanmáttarkennd. Af þessum sökum sé líklegra til árangurs að hluta vandamálin niður og leita að staðbundnum lausnum á hverju fyrir sig.

Alls verða þrjár sýninga í Bíó Paradís á myndinni sem er á ensku. Að lokinni frumsýningu, sem er opin öllum og allir velkomnir,  7.júní kl 20:00 og verða umræður eftir sýningu. Auk þessa verður myndin sýnd tvívegis 11. júní kl 18:00 og 12. júní klukkan 18:00.

Heimasíða myndarinnar

Facebooksíða myndarinnar

Brot úr myndinni

Aðrar myndir í sýningu