Íslenska krónan er seld á sama markaði og Bandaríkjadalur, evran og jenið. Þessir gjaldmiðlar þjóna hver og einn hundruðum milljóna meðan Íslendingar eru álíka margir og búa í Bakersfield í Bandaríkjunum, Akita í Japan og Bielefeld í Þýskalandi.
Í Íslensku krónunni er saga einnar minnstu myntar í heimi sögð á skemmtilegan og aðgengilegan hátt. Áhorfendur eru kynntir fyrir nokkrum lykilhugtökum í hagfræðinni og vendipunktum í peningasögunni áður en viðmælendur ræða kosti og galla þess að halda úti eigin gjaldmiðli, gæði íslenskrar hagstjórnar, möguleikann á upptöku evru eða annarra gjaldmiðla, gjaldeyri á netöld og tengsl þjóðarsálarinnar við gjaldmiðilinn, svo fátt eitt sé nefnt. Í einu orði má segja að myndin fáist við svofellda „gallabuxnahagfræði“, þ.e. hagfræði sem er miðlað á einfaldan hátt og á jafningjagrundvelli.
Meðal viðmælenda eru Már Guðmundsson seðlabankastjóri, Einar Már Guðmundsson rithöfundur, Kristrún Tinna Gunnarsdóttir hagfræðingur, Heiðar Már Guðjónsson fjárfestir, Vigdís Hauksdóttir þingkona, Guðni Th. Jóhannesson sagnfræðingur og Eyja Margrét Brynjarsdóttir heimspekingur auk fjölda annarra sérfræðinga og leikmanna sem eiga það öll sameiginlegt að nota krónuna á hverjum degi til að borga fyrir nauðsynjar.
Vinnsla myndarinnar hófst fyrir sjö árum, vorið 2008, og hefur því staðið yfir á róstursömum tímum í hagsögu landsins: gegnum bankahrun, búsáhaldabyltingu og gjaldeyrishöft. Þessar sviptingar eru þó ekki í forgrunni þótt auðvitað verði saga krónunnar ekki sögð án þess að minnast á þær.