Varnarliðið

Sýningatímar

Engar sýningar

  • Tegund: Heimildamynd/Documentary
  • Leikstjóri: Guðbergur Davíðsson og Konráð Gylfason
  • Ár: 2017
  • Lengd: 88 mín
  • Land: Ísland
  • Frumsýnd: 16. Nóvember 2017
  • Tungumál: Íslenska og á ensku með íslenskum texta

„Varnarliðið“ – Kaldastríðsútvörður, saga Bandaríkjahers á Íslandi 1951 til 2006.

Stórbrotin og vönduð heimildamynd um varnarlið Bandaríkjahers á Íslandi.

Bandarískt herlið, á vegum NATO, hafði aðsetur á Íslandi í 55 ár-  frá 1951 til 2006. Heraflinn, sem jafnan gekk undir nafninu „varnarliðið“ var staðsettur á afgirtri herstöð við Keflavíkurflugvöll, en líklega gera fáir sér fyllilega grein fyrir hlutverki hans og hversu mikil áhrif dvölin hefur haft á þjóðlíf og menningu landsmanna, enda var hún holdi klætt mesta þrætuepli þjóðarinnar frá upphafi byggðar.

Samskipti austur- og vesturvelda kólnuðu hratt í kjölfarið á seinni heimstyrjöldinni og allt í einu var þessi litla þjóð orðin mikilvægur þátttakandi í „köldu stríði“ stórveldanna. Sem stofnfélagi í NATO átti Ísland eftir að gegna mikilvægu hlutverki í varnaráætlunum bandalagsríkjanna í norðurhöfum, en herstöðin í Keflavík var í áratugi miðstöð kafbátaleitar og loftvarnaviðbúnaðar NATO.

Myndin er 88 mínútur að lengd og í henni er m.a. rætt við fyrrum liðsmenn og íslenska starfsmenn varnarliðsins, sem greina frá reynslu sinni og samskiptum auk sérfræðinga sem fjalla um sögulegar staðreyndir. Miklu af áður óbirtu myndefni hefur verið safnað saman við gerð myndarinnar bæði heima og erlendis.

„Varnarliðið“ – Kaldastríðsútvörður er unnin af kvikmyndagerðarmönnunum Guðbergi Davíðssyni og Konráð Gylfasyni, en byggt er á rannsóknarvinnu Friðþórs Eydal sem er meðal fróðustu Íslendinga um þetta viðfangsefni. Friðþór starfaði um árabil sem upplýsingafulltrúi varnarliðsins og hefur ritað fjölda greina og bóka auk þess að skrifa handrit myndarinnar með þeim Guðbergi og Konráð. Þulur er Sigurþór Heimisson leikari.

 

Aðrar myndir í sýningu