Í tilefni þess að hálf öld er liðin frá Kvennafrídeginum sýnir Kvikmyndasafn Íslands í samstarfi við RÚV sjónvarpsleikritið Hvað er í blýhólknum eftir Svövu Jakobsdóttur í leikstjórn Maríu Kristjánsdóttur.
Verkið fjallar um Ingu, dæmigerða íslenska
nútímakonu, og hvernig áhrif samfélagsins móta hana og ráða örlögum hennar.
Leikhópurinn Gríma setti verkið fyrst upp árið 1970, sama ár og Rauðsokkahreyfingin var stofnuð og árið 1971 var leikritið kvikmyndað og frumsýnt á RÚV. Þetta voru umbrotatímar í kvennabaráttunni á Íslandi sem náðu hápunkti með Kvennafríinu í október 1975. Svava Jakobsdóttir barðist ötullega fyrir réttindum kvenna, meðal annars á Alþingi í sex ár, ásamt fámennum hópi kvenna.
Myndin er áhugaverður samtímaspegill á kvennabaráttu áttunda áratugarins.
Sýnd sunnudaginn 26. október kl 14:30 í Bíótekinu og boðið verður upp á spurt og svarað að lokinni sýningu.