Við erum HEILAVINIR!
02/11/2023
Bíó Paradís í samvinnu við Alzheimersamtökin standa fyrir bíósýningu fyrir einstaklinga með heilabilun og aðstandendur þeirra miðvikudaginn 8. nóvember kl 14:00.
Sýnd verður kvikmyndin Stella í Orlofi eftir Guðnýju Halldórsdóttur í leikstjórn Þórhildar Þórleifsdóttur. Allur ágóði af sýningunni rennur til styrktar Alzheimersamtakanna.
Sýningin er hluti af KÓSY KINO verkefninu sem snýst um að gera Bíó Paradís aðgengilegra fólki sem færi annars ekki í bíó og er styrkt af EES sjóði Noregs, Íslands og Lichtenstein og ríkissjóði Slóvakíu.
En hvernig má gera bíósýningar aðgengilegri fyrir fólk með heilabilun og aðstandendur þeirra? Huga má að nokkrum atriðum fyrir sýningar til að mæta þörfum þessa hóps og bæta þar með upplifunin þeirra af því að koma í bíó.
- Vanda þarf val á mynd. Þó svo að erfitt sé að alhæfa hvað hentar öllum einstaklingum með heilabilun, þá er það líklegra að mynd sem er létt og skemmtileg falli vel í kramið. Mynd þar sem áhorfendur þurfa ekki að fylgja flóknu plotti til að njóta, mynd með góðum skammti af tónlist og kunnulegum aðstæðum. Örlítil nostalgía spillir heldur ekki fyrir og íslenskt tal gæti hjálpað. Með þetta að leiðarljósi þá varð kvikmyndaperlan Stella í Orlofi fyrir valinu, það hafa allir gott af því að hlæja svolítið og karakterarnir og umhverfið er kunnuglegt.
- Aðstæður í kvikmyndahúsinu þurfa að vera mjög skýrar og vel merktar. Merkja þarf salerni, inn- og útgönguleiðir sérstaklega. Lýsing þarf að vera góð, svo auðvelt sé að rata um.
- Þörf er á auka starfsfólki til að taka á móti, heilsa og láta vita að aðstoð, upplýsingar og hjálp er í boði til að komast um húsnæðið.
- Aðeins er hluti sæta salarins nýttur (u.þ.b. 70%) svo það sé nóg pláss fyrir þá sem þurfa aðstoð við að komast í og úr sætum sínum og gerum ráð fyrir meiri tíma í upphafi sýningar fyrir fólk að finna sér sæti
- Dauft ljós er á alla sýninguna svo það sé ekki erfitt að finna útganginn og fara fram.
- Hljóðið er stillt þannig að há og skerandi hljóð eru dempuð. Fólk með heyrnartæki getur setið aftast og notað tónmöskva til að hljóðið í myndinni berist beint í heyrnartækin
- Áður en myndin er sýnd, þá fer fram kynning á starfsfólki, útgönguleiðum, hvaða mynd við erum að fara að sjá og hvernig hægt sé að fá aðstoð ef á þarf að halda. Engar auglýsingar eða sýnishorn eru sýnd á undan myndinni.
- Áhorfendur eru hvattir til að klappa og syngja með ef þá langar til.
- Eftir sýningu væri gaman að staldra við í kaffi í anddyrinu fyrir þá sem vilja.
Þetta er ekki tæmandi listi yfir það sem hægt er að gera til að gera bíósýningar hentugri fyrir fólk með heilabilun, frekar skref í rétta átt.
Afhverju bíósýningar fyrir fólk með heilabilun?
- Margir sem greinast með heilabilun hætta smám saman að sækja viðburði vegna ótta við að ekki sé tekið tillit til þeirra, að þau verði fyrir fordómum, að aðstaðan sé flókin að skilja og óaðgengileg.
- Í könnun meðal Alzheimersamtakanna í Bretlandi kom í ljós að 69% fólks með heilabilun hefur hætt að sækja viðburði vegna of lítils sjálfstrausts.
- Menningarviðburðir hafa mjög jákvæð áhrif á lífsgæði fólks með heilabilun og þó minningarnar af viðburðinum séu óskýrar þá er tilfinningin af góðri samveru samt til staðar.
- Bíóferð með sínum nánustu er kærkomið og sjaldgæft tækifæri fyrir einstaklinga sem eru með heilabilun, til að vera þáttakendur í daglegu lífi án þess að vera stöðugt minnt á ástand sitt.
Bíó Paradís eru heilavinir af öllu hjarta og hluti af styðjandi samfélagi fyrir fólk með heilabilun og aðstandendur þeirra.
Skoða fleiri fréttir