Fréttir

Glóðvolg haustdagskrá komin út! // Exciting fall program out now!

05/10/2018
Nú getur Bíó Paradís loksins lyft hulunni af stórglæsilegum dagskrárbækling fyrir haustið 2018 – sem er stútfullur af æsispennandi myndum og stórkostlegum viðburðum fram að jólum!
Hægt er að kynna sér dagskrárbæklinginn nánar neðst hér á síðunni!

FRUMSÝNINGAR Á ALÞJÓÐLEGUM VERÐLAUNAKVIKMYNDUM

Á dagskránni eru að minnsta kosti tíu frumsýningar bara í október og nóvember á margverðlaunuðum alþjóðlegum verðlaunakvikmyndum ásamt vel völdum bíósmellum.
Hér má meðal annars finna blóðugan Nicolas Cage í sjónrænni hefndarveislu í myndinni Mandy, sem inniheldur síðasta soundtrack Jóhanns Jóhannssonar sem hlotið hefur einróma lof, þrjár gæðamyndir sem frumsýndar voru á kvikmyndahátíðinni RIFF þar sem Tómas Lemarquis fer með aðalhlutverk í myndinni Touch Me Not, grjótharða og ferska glæpamyndin Blindspotting sem jafnframt er þjóðfélagsleg ádeila á byssueign Bandaríkjamanna og slegið hefur í gegn, ásamt stórleikurunum Penélope Cruz og Javier Bardem sem sýna snilldartakta í dularfullri sögu um brúðkaup sem tekur óvænta stefnu vegna leyndarmála sem koma uppá yfirborðið í myndinni Everybody Knows.
 
Helmingur myndanna sem sýndar verða eru framlög heimalandsins til Óskarsverðlaunanna 2019 í flokknum besta erlenda myndin:
-Sólsetur // Sunset (Napszállta) frá Ungverjalandi – Draumkennd og og leyndardómsfull mynd eftir László Nemes sem hlaut Óskarinn 2016 fyrir bestu erlendu myndina Son of Saul.
Mæri // Border (Gräns) frá Svíþjóð – Landamæravörður með yfirnáttúrulegt lyktarskyn þar sem tröllaklám kemur við sögu… Mæri  vann Un Certain Regard flokkinn á Cannes og er ein frumlegasta og skemmtilegasta mynd ársins.
Hinn seki / The Guilty (Den Skyldige) frá Danmörku – Æsispennandi þriller eins og þeir gerast bestir frá frændum okkar Dönum sem hlotið hefur einróma lof gagnrýnenda og vann meðal annars áhorfendaverðlaun á bæði Sundance og Rotterdamþ
Kalt stríð // Cold War (Zimna Wojna) frá Póllandi – Frábær og svöl ástarsaga sem keppti um Gullpálmann í Cannes 2018 þar sem hinn margverðlaunaði Pawel Pawlikowski vann verðlaun sem besti leikstjórinn, en hann hlaut einnig Óskarinn 2015 fyrir bestu erlendu myndina Ida.
Erfingjarnir // The Heiresses (Las Herederas) frá Paragvæ – Stórkostleg kvikmynd um tvær auðugar lesbíur sem lenda í honum kröppum þegar fjárhagurinn fer að dala. Myndin sló í gegn á Berlinale kvikmyndahátíðinni 2018 og vann bæði FIPRESCI verðlaun fyrir bestu myndina og Silfurbjörninn fyrir bestu leikkonu í aðalhlutverki.

PÓLSKA NÝBYLGJAN

Vegna mikillar eftirspurnar sýnir Bíó Paradís glóðvolgar og vinsælar myndir frá Póllandi um svipað leyti og þær fara í sýningar í heimalandinu með enskum texta. 
 
Í október tekur myndin Kler (Clergy) af skarið og fjallar um siðblinda og spillta kaþólska presta, myndin hefur valdið miklu fjaðrafoki í Póllandi og kaþólsk hagsmunasamtök berjast fyrir því að bannað verði að sýna hana. Svo verður skipt örlítið um gír og fjallar næsta mynd Diwyzjon 303 (Squadron 303) um ótrúlega sögu herdeildar 303 í breska konunglega flughernum (RAF), sem samanstóð mestmegnis af pólskum flugmönnum sem frömdu hetjudáðir í háloftunum fyrir Bretland í seinni heimstyrjöldinni. Þegar sígur örlítið meira á skammdegið taka léttari myndir við, í grínmyndinni Juliusz fylgjumst við með baráttu rólynds listfræðikennara við aldraðan föður sinn ásamt því að kærulaus dýralæknir kemur inn í líf þeirra, svo svífur rómantíkin yfir vötnum í grínmyndinni Planeta Singli 2 þar sem Ania og Tomek eru í smá sambandskrísu vegna ólíkra væntinga til hvors annars þegar auðmaður mætir allt í einu til leiksins sannfærður um að engin önnur kona passi honum betur en Ania. Hér á eftir tekur við heimsfrumsýning á undan Póllandi á nýjustu stórmynd Patryk Vega, en hann er nokkurs konar Baltasar Kormákur Pólverjanna, í Plagi Breslau (Plageus of Breslau) gengur raðmorðingi laus og lögregluþjónninn Helena Rus leggur allt í sölurnar til að ná honum í æsispennandi kapphlaupi við tímann.

NÝJAR ÍSLENSKAR MYNDIR

Bíó Paradís gerir að sjálfsögðu íslenskum kvikmyndum hátt undir höfði, þar sem við sýnum íslensku heimildamyndirnar: Bráðum verður bylting! um sendiráðstökuna í Stokkhólmi árið 1970, Svona Fólk (Fyrri hluti 1970-1985) sem fjallar um upphaf réttindabaráttu homma og lesbía á Íslandi, Litla Moskva eftir hinn margverðlauna leikstjóra Grím Hákonarson um lítið bæjarfélag og hvernig það hefur breyst í tímans rás. Þar að auki tökum við íslensku stórmyndirnar Lof mér að falla eftir Baldvin Z og Undir Halastjörnu eftir Ara Alexander til sýninga með enskum texta, en það er komin rík hefð fyrir því að sýna íslensku bíómyndirnar á þann hátt í Bíó Paradís til að skapa aukið aðgengi að íslenskri kvikmyndagerðalist fyrir bíóáhugafólk sem ekki talar íslensku.

PARTÍBÍÓ OG KÖLTMYNDIR

Kvöldin í Paradís geta verið virkilega fjölbreytt og það eru margir bíógestir sem geta ekki hugsað sér að missa af föstu liðunum okkar á borð við Föstudagspartísýningar þar sem gleði og glaumur ráða ríkjum í góðra vina hópi yfir góðri ræmu, Svartir Sunnudagar þar sem boðið er uppá frábært úrval af klassískum költmyndum af ýmsum toga í lok helgarinnar, og mánaðarlegu viðburðirnir Prump í Paradís þar sem Hugleikur Dagsson hefur sérvalið bestu “verstu” myndir allra tíma fyrir áhorfendur og býður hann til sín útvöldum gestum til að ræða myndir kvöldsins að lokinni sýningu sem tekið er upp sem podcast/hlaðvarp. Hérna yrði upptalningin á dagskránni alltof löng en við getum fullyrt að hér er að finna kvikmyndaperlur við allra hæfi – þó er hætta á því að allra hörðustu bíófíklarnir ánetjist þessum vinsælu sýningum… –  við látum stillurnar tala sínu máli hér fyrir neðan.

BRESKA ÞJÓÐLEIKHÚSIÐ

Samstarfið við Breska Þjóðleikhúsið (National Theatre Live) heldur áfram á þessu leikári þar sem Bíó Paradís mun sýna vel valdar leikhúsuppfærslur í frábærum mynd- og hljómgæðum. Hérna gefst Íslendingum einstakt tækifæri á að berja augum bestu og þekktustu verk í uppfærslu Breska Þjóðleikhússins sem hlotið hafa einróma lof gagnrýnenda. Bíó Paradís mun bjóða uppá sígilda leikverkið úr smiðju Shakespeare um Lér Konung með Sir Ian McKellen sem vinnur enn einn leiksigurinn í titilhlutverki konungsins, vinsælasta skáldverk Mary Shelley Frankenstein er hér leikstýrt af Óskarsverðlaunahafanum Danny Boyle þar sem Johnny Lee Miller fer með hlutverk Victor Frankenstein ásamt Benedict Cumberbatch í hlutverki sköpunarverks Dr. Frankenstein, og síðast en ekki síst mun Julie stíga á stokk í nýjum búningi eftir hinu þekkta leikverki Miss Julie eftir August Strindberg.

JÓLAUPPHITUN

Við höldum venjunni áfram með því að hita upp fyrir jólin þar sem hluti af jólaundirbúningnum felst að sjálfsögðu í því að horfa á klassískar jólamyndir af ýmsum toga – fyrir marga er þetta ómissandi hefð fyrir jólin að skella sér með vinum/vinkonum/fjölskyldu í frábæra jólastemninguna í Bíó Paradís. Í ár munum við sýna vinsæla gullmola á borð við The Holiday, Love Actually, Die Hard, Home Alone 1 & 2, How the Grinch Stole Christmas – svo allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi á sérstökum jólapartísýningum.
 

 

 

Skoða fleiri fréttir