Ósvaldur Knudsen er einn merkilegasti og afkastamesti kvikmyndagerðarmaður 20. aldar á Íslandi.
Á þessari sérstöku sýningu verða sýnd brot úr myndum hans sem spanna alla ferilinn og farið í helstuafrek hans í kvikmyndagerð. Frá þjóð- og náttúrulífsmyndum til svipmynda af helstu listamönnum þjóðarinnar og hrikalegra eldgosamynda verða myndir Ósvalds teknar fyrir og bent á helstu einkenni hans sem kvikmyndagerðarmanns og breytinga á kvikmyndagerð hans, allt frá íhaldssemi til framúrstefnu.
Gunnar Tómas Kristófersson, sérfræðingur hjá Kvikmyndasafni Íslands, mun leiða sýninguna sem endar á því að sýna í heild sinni eina af þekktustu myndum Ósvalds, Sveitin milli sanda, sem fjallar á ljóðrænan máta um lífið og náttúruna í Öræfasveit.
Sveitin milli sanda (1964) Ósvaldur kvikmyndar lifnaðarhætti fólks, mannlíf og mikilfenglega náttúru sem hefur mikil áhrif álífið í Öræfasveitinni.
Þekkt er titillag myndarinnar eftir Magnús Blöndal Jóhannsson í goðsagnakenndum flutningi Ellýjar Vilhjálms, en það var samið fyrir myndina og gefur henni dulúðugan blæ.
Sigurður Þórarinsson jarðfræðingur er sögumaður og kemst áhugi hans og þekking á jarðfræði vel til skila. Tónlist Magnúsar Blöndal er einstök og mótaði kvikmyndagerð Ósvalds.
Fögur stef hans og oft framúrstefnuleg raftónlist setur myndefni úr einni einangruðustu sveit landsins ávalltí rétt samhengi.*Sérstakur viðburður