Fréttir

Af jörðu ertu kominn // Cosmic birth – 50 ára afmæli tungllendingar 20.júlí

31/05/2019

Fóru til tunglsins en uppgötvuðu jörðina

Heimildarmyndin Af jörðu ertu kominn eða Cosmic birth eins og hún heitir á ensku, verður frumsýnd í Bíó Paradís þann 20. júlí n.k. en þann dag verða liðin 50 ár frá því að Neil Armstrong og Buzz Aldrin lentu fyrstir manna á tunglinu. Geimfararnir sem fóru til tunglsins æfðu hér á Íslandi fyrir ferðir sínar.

Í myndinni segja tunglfararnir frá tíma sínum hér á landi en jafnframt frá persónulegri upplifun sinni af því að heimsækja tunglið. “Þeir fóru til tunglsins en uppgötvuðu jörðina,” segir Örlygur Hnefill Örlygsson, handritshöfundur myndarinnar. “NASA undirbjó þá vel fyrir tunglferðina, en ekkert var hugað að því að mynda jörðina. Jörðin reyndist síðan það sem vakti mestan áhuga þeirra, enda höfðum við aldrei áður séð heimili okkar úr slíkri fjarlægð.” Myndir tunglfaranna af jörðinni áttu stóran þátt í að vekja umhverfishreyfinguna í upphafi áttunda áratugarins. Cosmic birth er framleidd af Colorwaves fyrir The Exploration Museum. Leikstjórn er í höndum Rafnars Orra Gunnarssonar.

Skoða fleiri fréttir