Barnakvikmyndahátíð 2024 – VIÐBURÐIR

OPNUNARHÁTÍÐ ALÞJÓÐLÞEGRAR BARNAKVIKMYNDAHÁTÍÐAR Í REYKJAVÍK 2024

Velkomin á opnunarhátíð Alþjóðlegrar Barnakvikmyndahátíðar í Reykjavík laugardaginn 26. október kl 14:00 í Bíó Paradís!

Frítt inn og allir velkomnir en nauðsynlegt er að skrá sig. Skráningarhlekkur birtist hér innan skamms.

Opnunarmynd hátíðarinnar í ár ævintýra og fantasíumyndin FLOW, sem vann dómnefndar og áhorfendaverðlaun á Annecy teiknimynda hátíðinni 2024. Myndin er án tals og hentar börnum 9 ára og eldri.

Léttar veitingar fyrir börn í boði Sendinefndar ESB á Íslandi fyrir sýningu!

Dagskrá:

Laugardaginn 26. október í Bíó Paradís

14:00 Opnunarhátíð – léttar veitingar og spurningaleikur með Evrópuþem

14:30 Frumsýning á kvikmyndinni FLOW – myndin er án tals og hentar börnum 9 ára og eldri

 

LISTASMIÐJA: SVÍFANDI DRAUGAR Í BÍÓ PARADÍS! 

Haustfrí: Svífandi draugar í Bíó Paradís – Listasmiðja

Hrekkjavaka er gengin í garð og Bíó paradís býður börnum og fjölskyldum þeirra í listasmiðju þar sem börn geta útbúið sína eigin drauga!

Komið og látið listræna hæfileika njóta sín í góðum félagsskap. Hægt er að taka draugana með sér heim eða hengja þá upp á staðnum.

Það verður sannkölluð hrekkjavökustemning í Bíó Paradís á Aþjóðlegri Barnakvikmyndahátíð í Reykjavík 26. október – 3. nóvember 2024!

 

BEETLEJUICE – FJÖLSKYLDUSÝNING!

Fjölskyldusýning á hinni klassísku Beetlejuice á Alþjóðlegri Barnakvikmyndahátíð í Reykjavík 2024!

Sýnd laugardaginn 26. október kl 17:00 með íslenskum texta. Athugið 12 ára aldurstakmark.

Stórskemmtileg og fyndin draugasaga sem fjallar um ung hjón sem lenda í bílslysi og deyja. Þau snúa síðan aftur sem draugar og fara heim til sín. Í fyrstu virðist allt eins og áður, en fljótlega koma aðrir lifandi íbúar til að búa í húsinu, draugunum til lítillar ánægju.

 

NÁMSKEIÐ Í SKAPANDI TEIKNIMYNDAGERÐ MEÐ UNU LORENZEN

Námskeið í skapandi teiknimyndagerð með Unu Lorenzen

Leiðbeinandi: Una Lorenzen

Sunnudagur 27. október kl 12:00-14:00

Hvernig býr maður til teiknimyndir? Una Lorenzen, leikstjóri og listamaður, gefur 8-10 ára börnum innsýn í grunninn á teiknimyndagerð á Alþjóðlegri Barnakvikmyndahátíð í Reykjavík.

Á þessu ör-námskeiði í Bíó Paradís munum við skoða og upplifa hvernig klippimyndir, teikningar og jafnvel sandur getur vaknað til lífsins á skjánum.

Athugið að nauðsynlegt er að skrá sig á námskeiðið. Takmarkað pláss! Vinsamlega sendið tölvupóst með nafni, aldri barns ásamt símanúmeri forráðaaðila á lisa@bioparadis.is

 

ELSKAN, ÉG MINNKAÐI BÖRNIN! – BARNAKVIKMYNDAHÁTÍÐ

Wayne Szalinski er léttgeggjaður vísindamaður sem á erfitt með að fá minnkunarvélina sína til að virka. En þegar hann skyndilega minnkar börnin sín niður í nokkra millimetra og hendir þeim út með ruslinu, þá hefst ævintýrið fyrir alvöru!

Sannkölluð nostalgíusýning á Alþjóðlegri Barnakvikmyndahátíð í Reykjavík, sunnudaginn 27. október kl 15:00!

 

LINDA VEUT DU POULET – FJÖLSKYLDUSÝNING OG FRANSKAR VEITINGAR

Paulette sem er sannarlega ástrík móðir, finnur til sektarkenndar eftir að hafa refsað Lindu dóttur sinni á ósanngjarnan hátt.

Hún ákveður að elda kjúkling með papriku, þó hún kunni ekki að elda.

Myndin er sýnd með íslenskum texta í samstarfi við Franska sendiráðið í Reykjavík.

Myndin vann sem besta myndin á Annecy kvikmyndahátíðinni 2023.

Fyrir sýningu myndarinnar (kl. 16) býður franska sendiráðið börnum upp á veitingar. Myndin sjálf hefst klukkan 16.30 og er með íslenskum texta.

Hlökkum til að sjá ykkur!

 

STUTTMYNDIR EFTIR NÝJA ÍSLENSKA HREYFIMYNDAHÖFUNDA – SPURT & SVARAÐ!

Bíó Paradís og Alþjóðleg Barnakvikmyndahátíð í Reykjavík bjóða á sýningu á hreyfi-stuttmyndum eftir íslenska höfunda miðvikudaginn 30. október kl 17:00. Frítt inn og allir velkomnir!

Á eftir sýningunni verður boðið upp á spurt & svarað með höfundunum myndanna þar sem þær gefa innsýn inn í ferlið á bak við hreyfimyndagerð og notkun teikni- og hreyfimynda til þess að til þess að tjá fjölbreyttar frásagnir.

Frítt inn og allir velkomnir en nauðsynlegt er að skrá sig. Hlekkur birtur innan skamms.

Myndir:

Alda Ægisdóttir
Soulmates
10 mín

Í heim útsaumaðra blóma og skordýra, eru tveir elskhugar aðskildir af yfirnáttúrulegum öflum.

Fanny Sissoko
Á yfirborðinu
4 mín

Ada, ung kona af erlendum uppruna, fer að synda í íslenskum sjó og hugleiðir það að ala upp barn í framandi landi.

Rakel Andrésdóttir
Kirsuberjatómatar
3 mín

Stutt teiknimynd um sumarið sem ég var send í sveit til þess að týna og flokka kirsuberjatómata.

Una Lorenzen
Story of Nothing
3 mín

Heimspekilegar spurningar vakna þegar að Eitthvað reynir að finna Ekkert. Ferðalag sem gæti breyst í hættuför.

Una Lorenzen
Rímur
6 mín

Náttúra og loftslagsbreytingar persónugerast með jarðskjálftum, eldfjöllum, bráðnun snjós og rísandi sjó.

VÍXLKLIPPING: SAMNORRÆN TEIKNIMYND

Ætlar bekkurinn þinn að taka þátt í því að framleiða teiknimynd með öðrum nemendum frá Norðurlöndunum? Í kennsluferlinu er lögð áhersla á kvikmyndaframleiðslu og þið takið þátt í að búa til teiknimyndaatriði með stillumyndum fyrir kvikmyndaverkefni. Nemendur frá öllum Norðurlöndunum taka þátt í verkefninu. Einfaldar aðferðir og auðskilið ferli sem veitir ykkur tækifæri til að skapa skemmtilegar persónur og hasar!

BUSTER mun vinna með atvinnuleikstjóra og fagmanni í framleiðslu teiknimynda. Atriðunum verður safnað saman og klippt í eina mynd sem frumsýnd verður á þessari síðu.

Takið þátt fyrir 1. nóvember 2024 og deilið ykkar skemmtilegu, skrýtnu og skapandi hugmyndum!

KEPPNI
Með því að taka þátt eigið þið möguleika á að fá vinning sem felur í sér kvikmyndaveislu fyrir bekkinn að virði DKK 5.000.

HVERNIG TÖKUM VIÐ ÞÁTT?

Teiknimyndin fjallar um kind sem ekki vill láta klippa ullina á sér. Í staðinn vill hún mjög gjarnan eignast vin. Þið eigið að skapa skemmtilegar persónur og hasar fyrir söguþráðinn!

Lýsing á öllu ferlinu er að finna í vinnublaði fyrir nemendur, það inniheldur kynningu á gerð teiknimynda og stillumyndum, sem og atriði sem þið þurfið að hafa í huga þegar handrit er samið.

Um verkefnið

Kennsluefni

 

EINAR ÁSKELL – LIFANDI TALSETNING!

Dásamleg stund í bíó, þar sem við horfum á þrjár myndir í röð:

Bittu slaufur, Einar Áskell!

Höldum veislu, Einar Áskell!

Útsmoginn Einar Áskell

með lifandi talsetningu á íslensku í lestri Þórunnar Lárusdóttur.

Sýningin tekur samtals 36 mínútur og er ætluð fyrir yngstu kynslóðina.

Þrír sýningartímar í boði.

Sýningartímar laugardaginn 2. nóvember

10:30

12:30

14:00

Aðeins eitt miðaverð, fyrir fullorðna og börn en myndirnar eru sýndar á Alþjóðlegri Barnakvikmyndahátíð í Reykjavík 2024.

 

STELPUR LEIKA! UNDIRBÚNINGUR FYRIR ÁHEYRNARPRUFUR

Stelpur leika! Undirbúningur fyrir áheyrnarprufur

Leiðbeinandi: Vigfús Þormar Gunnarsson

Laugardagur 2. nóvember kl 12:00-14:00

Langar þig til þess að leika í kvikmyndum? Hvernig getur þú undirbúið þig best fyrir áheyrnarprufur?

Á Alþjóðlegri Barnakvikmyndahátíð í Bíó Paradís verður boðið upp á námskeið fyrir stelpur á aldrinum 10-12 ára þar sem farið verður yfir það hvernig best er að undirbúa sig fyrir áheyrnarprufur og kennt grunninn í því hvernig á að fara með hlutverk í kvikmynd.

Vigfús Þormar Gunnarsson útskrifaðist úr leiklist frá Kvikmyndaskóla Íslands árið 2012 og hefur komið víða að í kvikmyndagerð en árið 2018 stofnaði hann fyrirtækið Doorway Casting sem sérhæfir sig í leikaravali fyrir kvikmyndir, sjónvarp og auglýsingar.

Athugið að nauðsynlegt er að skrá sig á námskeiðið. Takmarkað pláss! Vinsamlega sendið tölvupóst með nafni, aldri barns ásamt símanúmeri forráðaaðila á lisa@bioparadis.is

 

ÖRNÁMSKEIÐ SKJALDBÖKUNNAR Á ALÞJÓÐLEGRI BARNAKVIKMYNDAHÁTÍР

Laugardagur 2. nóvember kl 15:00-17:00

Hvernig eru heimildamyndir búnar til? Hvað snúast þær um og get ég gert svoleiðis? Skjaldbakan er námskeið í heimildamyndagerð á vegum Skjaldborgar – hátíðar Íslenskra heimildarmynda. Annað hvert ár gera krakkar í grunnskólum á Patreksfirði, Seyðisfirði og Reykjavík stuttar heimildamyndir á námskeiðinu undir leiðsögn Skjaldborgara.

Á Alþjóðlegri Barnakvikmyndahátíð í Bíó Paradís verður haldið örnámskeið fyrir krakka á aldrinum 10-13 ára. Þar verður farið yfir helstu einkenni og eiginleika heimildamynda og nemendur fá að spreyta sig með myndavélar í hönd að skapa örstuttar heimildamyndir!

Athugið að nauðsynlegt er að skrá sig á námskeiðið. Vinsamlega sendið tölvupóst með nafni, aldri barns ásamt símanúmeri forráðaaðila á lisa@bioparadis.is

SKJALDBAKAN – HEIMILDAMYNDIR EFTIR KRAKKA! 

Skjaldbakan er námskeið í heimildamyndagerð á vegum Skjaldborgar – hátíðar Íslenskra heimildarmynda. Nemendur í 5. – 7. bekk á Patreksfirði, Seyðisfirði og Reykjavík læra heimildamyndagerð í haust og unnu myndir um sitt nærumhverfi.

Sýnt verður úrval stuttra heimildamynda sem krakkarnir hafa skapað á námskeiðunum 2022-2023.

Fret inn og allir velkomnir en nauðsynlegt er að skrá sig.

 

E.T. THE EXTRA-TERRESTRIAL

Myndin fjallar um geimveruna E.T. sem verður viðskila við félaga sína og ílengist á jörðinni. Ungur drengur, Elliot, finnur hana og platar hana heim til sín þar sem systkini Elliots kynnast geimverunni.E.T. langar þó mest að komast til síns heima og reynir Elliot sitt besta til að hjálpa henni.

En sú allra besta klassík sem öll fjölskyldan ætti að njóta saman á Alþjóðlegri Barnakvikmyndahátíð í Reykjavík, sýnd með íslenskum texta. Hentar börnum 7+.

Sýnd laugardaginn 2. nóvember kl 17:00.

 

KVIKMYNDAKLÚBBUR EVRÓPU – YOUNG AUDIENCE FILM DAY 2024

Young Audience Film Day verður haldinn hátíðlegur á Alþjóðlegri Barnakvikmyndahátíð í Reykjavík þann 3. nóvember í Bíó Paradís í samstarfi við Kvikmyndamiðstöð Íslands.

Sýning á kvikmyndinni Scrapper – vinningsmynd Young Audience Award 2023!

Georgie, draumkennd 12 ára stúlka, býr hamingjusöm ein í íbúð sinni í London og fyllir hana töfrum. Skyndilega snýr fjarlægur faðir hennar upp og neyðir hana til að horfast í augu við raunveruleikann.

Frítt inn en nauðsynlegt er að bóka miða á viðburðinn. Skráningarhlekkur verður birtur fljótlega.

Dagskrá:

13:00 Kynning á Kvikmyndaklúbb Evrópu
13:10 Sýning á myndinni Scrapper samtímis í bíóhúsum um alla evrópu
14:35 Spjall um myndina með ungmennaráði UngRIFF
15:05 Spurt og svarað með leikstjóra og leikurum myndarinnar í gegnum fjarfundarbúnað.

Kvikmyndaklúbbur Evrópu er vettvangur, sem breiðir úr sér í Evrópu og á netinu, þar sem ungmenni geta komið saman, horft á evrópskar kvikmyndir, rætt og jafnvel deilt eigin kvikmyndaverkum með öðrum.

Nánar: https://europeanfilmclub.com